Umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt fékk neitun á grundvelli þess að hann hefði fengið umferðarsektir. Sektirnar voru 10 þúsund krónum yfir leyfilegu hámarki.
Umsækjandinn greinir frá þessu á Facebook grúbbunni Lögfræðinördum og spyr ráða. Hann sótti um ríkisborgararétt þann 10. nóvember árið 2023 en í gær, tæpum tveimur árum seinna fékk hann neitunarbréf.
Ástæðan fyrir þessu voru umferðarsektir. Það er að hann fékk sektir upp á samanlagt 90 þúsund krónur undanfarna 12 mánuði. En takmörk fyrir umsækjendur eru 80 þúsund krónur og var hann því 10 þúsund krónum yfir leyfilegum mörkum. Greinir hann frá því að ein af þessum sektum, upp á 40 þúsund krónur, hafi hann fengið 24. ágúst, fyrir aðeins þremur vikum síðan.
„Ég tek fulla ábyrgð á þessum mistökum og ég er ekki að leita að fordæmingu, bara ráðum frá öllum sem hafa lent í svipaðri stöðu,“ segir hann. „Í hreinskilni sagt þá finnst mér það ósanngjarnt því þeir byrjuðu að vinna úr þessu í apríl 2025 og þeir hafa hangið allt sumarið á þessari umsókn án þess að samþykkja eða neita því þeir gátu ekki fundið ástæðu (þar til ég gaf hana) en lífið er ekki sanngjarnt og ég viðurkenni það og tek ábyrgð á þessu.“
Eins og staðan sé í dag sjái hann aðeins tvo valkosti. Annars vegar að áfrýja innan 3 mánaða eða bíða fram í ágúst árið 2026 þegar ár er liðið frá síðustu sekt og þá sótt aftur um með hreinu sakavottorði.