Hefur þú einhvern tímann velt því fyrir þér hversu margir maurar eru til í heiminum? Þeir eru margir, mjög margir. Engu að síður hafa þessi stórmerkilegu dýr ekki náð fótfestu á Íslandi.
„Það eru litlu hlutirnir sem stjórna heiminum,“ segir líffræðingurinn Edward O. Wilson, einn af vísindamönnum sem reynt hafa að reikna umfang maura á jörðinni. Þessi litlu dýr láta ekki fara mikið fyrir sér en umfang þeirra er langtum meira en við gerum okkur grein fyrir eins og fjallað er um í vísindamiðlinum IFL Science, þar sem fjallað er um rannsókn Wilson og fleiri.
Samkvæmt Wilson og félögum eru til að minnsta kosti 20 „kvadrilljón“ maurar á jörðinni. Það gera 20 milljón milljarða maura. En rannsóknin var byggð á um 500 öðrum rannsóknum á maurum, bæði þeim sem dvelja á jörðinni og í trjám.
Til að setja þetta í samhengi þá er heildar lífmassi mauranna 12 megatonn, það er 12 milljón tonn af þurru kolefni. Það er meiri lífmassi en hjá öllum villtum fuglum og spendýrum á jörðinni. Einnig er þetta um 20 prósent af lífmassa mannkyns.
Þrátt fyrir að talan hljómi ansi stór, þá viðurkenna vísindamennirnir að hér sé ábyggilega um vanmat að ræða. Það er að fjöldinn sé meiri. Þetta er hins vegar það sem þeir treysta sér til að fullyrða að sé lágmarkið. Rannsóknir skorti á mörgum svæðum.
En hvar eru allir þessir maurar? Flestir jarðmaurar dvelja á tveimur svæðum. Það er í regnskógum og á sléttum á hitabeltissvæðum. Þeim meiri gróður sem er þeim mun fleiri maurar eru. Til að mynda er þéttleiki maura fjórum sinnum meiri í skóglendi en þar sem eru aðeins runnar. Sumar tegundir eru þó fjölmennari á þurrum svæðum.
Talið er að maurar hafi komið fram á sjónarsviðið fyrir um 140 til 168 milljón árum síðan. Í dag er þekktur fjöldi tegunda rúmlega 15.700. Það er bæði tegundir og undirtegundir.
Maura má finna í öllum heimsálfum nema á Suðurskautslandinu. Aðeins örfáir aðrir staðir á jörðinni hafa engar landlægar tegundir maura. Þetta eru landfræðilega einangraðir staðir eins og Ísland, Grænland, nokkrar eyjur í Pólínesíu í Kyrrahafi og nokkrar aðrar afskekktar eyjur.
Tegundafjöldinn er mestur í hitabeltinu en flest lönd heimsins hafa tugi ef ekki hundruð landlægra maurategunda. Til að mynda eru 65 tegundir í Noregi, 60 í Danmörku og 51 í Bretlandi. Hér er hægt að sjá kort yfir fjölda maurategunda í heiminum.
Þykir það mjög merkilegt hvernig maurar náðu að taka yfir heiminn og þróast til að búa á svo mörgum og mismunandi svæðum.
„Við erum að reyna að skilja hvernig þeir gátu orðið svona fjölbreyttir út frá einum sameiginlegum forföður og gátu aðlagast svona mörgum svæðum,“ segir Matthew Nelsen, vísindamaður við Field safnið í Chicago. „Þegar við horfum á heiminn í dag þá sjáum við maura í næstum öllum heimsálfum, á ólíkum svæðum og mismunandi svæðum innan þeirra svæða. Þetta er heimur mauranna, við bara búum í honum – nema við séum á Suðurskautinu auðvitað.“