Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir skammarlegt ástand ríkja á húsnæðismarkaði. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir hún að takmarka þurfi verulega heimildir til skammtímaleigu, þar með talið Airbnb á höfuðborgarsvæðinu og öðrum stórum þéttbýlisstöðum. Segir hún að slíkar aðgerðir virki hraðast til að slá á misvægi milli framboðs og eftirspurnar húsnæðis.
Hún segir að setja þurfi leigubremmsu á bæði langtímaleigu og skammtímaleigu og bendir á að leigubremsa sé mikilvægt verkfæri í baráttu við verðbólgu:
„Ræddi stuttlega í gær við fréttamann Sýnar um það sem virðist vera sagan endalausa, hið skammarlega ástand sem ríkir á húsnæðismarkaði.
Afstaða stjórnar Eflingar er skýr og um hana má lesa í ályktun stjórnar frá því í maí. M.a. setjum við þessar kröfur fram:
Takmarka þarf verulega heimildir til að nýta íbúðir til skammtímaleigu (AirBnB o. fl.) á höfuðborgarsvæðinu og eftir atvikum í öðru þéttbýli. Það eru þær aðgerðir sem virka hraðast til að slá á misvægi framboðs og eftirspurnar sem orsakar óeðlilegar verðhækkanir.
Koma á alvöru hömlum á verðhækkanir leigu (þ.e. leigubremsu, bæði í langtímaleigu og skemmri tíma leigu). Ísland þarf að nálgast grannríkin í þessum efnum svo um munar. Leigubremsa er líka mikilvægt verkfæri í baráttunni við verðbólguna.“
Sólveig Anna vísar í ályktun stjórnar Eflingar um húsnæðismál frá því í vor en þar er meðal annars lögð áhersla á að efla húsnæðisstuðning hisn opinbera, „bæði til að auka enn frekar framboð íbúða til lægri tekjuhópa á vegum óhagnaðardrifinna aðila og létta byrðar heimila.“