Vladímír Pútín hefur sífellt færri valmöguleika en einn þeirra er að stigmagna átökin og við sjáum nú þegar smávegis merki um það að mati sérfræðings.
„Rússland getur reynt að stigmagna stöðuna, fjölga mikið í hernum svo þeir hafi eina milljón hermanna undir vopnum. Og boðskapurinn að ofan er að allt rússneska samfélagið verði að búa sig undir stríð,“ sagði Flemming Splidsboel, sérfræðingur í málefnum Rússlands, í samtali við B.T.
Hann var spurður út í frestinn sem Trump hefur gefið Pútín til að binda enda á stríðið en hann rennur út 8. ágúst.
Splidsboel sagðist telja að þetta setji Rússland í þá stöðu að hafa mjög fáa valkosti og einn þeirra sé stigmögnun.
Dmitry Medvedev, fyrrum forseti Rússlands, tjáði sig nýlega á X og hótaði Trump og sagði að tímamörk hans geti valdið dramatískri þróun. Kannski beinu stríði á milli Rússlands og Bandaríkjanna.
Þrátt fyrir að margir geri lítið úr hótun Medvedev, þá hafa Rússar á síðustu mánuðum undirbúið sig undir langvinnt stríð, hugsanlega einnig annars staðar en í Úkraínu.
Samhliða því að stríðið í Úkraínu hefur dregist á langinn, hefur rússneska hagkerfið skipt yfir í stríðshagkerfi. Á síðasta ári fóru 30% ríkisútgjalda til hernaðarmála, þar á meðal til lögreglunnar og þjóðvarðliðsins.
Splidsboel sagði að þetta sé hugsanlega upphafið að því að Rússland vígbúist og fari úr því að standa í „sérstakri hernaðaraðgerð“, eins og Pútín segir stríðið í Úkraínu vera, yfir í að vera í stríði og það ekki bara við Úkraínu, heldur við öll Vesturlönd.
Nýtt lagafrumvarp í rússneska þinginu, Dúmunni, bendir til þess að svo geti farið. Ef frumvarpið verður samþykkt, þá gerir það hernum kleift að kalla menn til herþjónustu allt árið, ekki bara tvisvar á ári eins og nú er.
Rússar hafa einnig sett ný herhéruð á laggirnar en það bendir til að þeir séu að undirbúa sig undir hugsanleg átök utan Úkraínu.
„Allar þessar nýjungar, ný herhéruð, breytingar á innköllun manna á herskyldualdri og útgjöld til varnarmála, benda til að Rússland sé að undirbúa sig undir langvarandi stríð, ekki bara í Úkraínu, heldur einnig gegn NATÓ,“ sagði Kateryna Stepanenko, sérfræðingur hjá hugveitunni Institute for the Study of War, í samtali við Kyiv Independent.