Litlu munaði að maður hefði látist eftir hnífstunguárás í Reykjanesbæ í júní. Gæsluvarðhald hefur verið framlengt yfir meintum geranda en brotaþolinn var hætt kominn og hrakaði mjög eftir á sjúkrahús var komið. Þurfti að beita lífsbjargandi meðferð.
Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar í gær sem var birtur í dag. En þar er staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjaness um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem er grunaður um alvarlega líkamsárás og tilraun til manndráps.
Árásin átti sér stað að kvöldi 20. júní. Klukkan 22:15 barst lögreglu tilkynning um mann sem var að brjóta rúður í bílskúr á heimili tilkynnanda í Reykjanesbæ. Skömmu síðar var tilkynnt um líkamsárás skammt frá þeim stað.
Lögreglan mætti á staðinn og fann þar hinn særða mann og son hans. Var brotaþolinn með alvarlega stunguáverka á hönd, hnakka og baki. Blæddi mikið úr sárum hans.
Sjúkralið mætti á vettvang til að hlúa að manninum og færði hann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. En þar fór heilsu mannsins að hraka verulega og var hann fluttur með hraði á bráðamótttöku Landspítalans í Fossvogi. Þar undirgekkst hann lífsbjargandi meðferð og var vistaður á gjörgæsludeild.
Ræddi lögregla við eiginkonu brotaþola sem hafði heyrt háa skelli og öskur hjá þeim. Þegar hún fór út hafði hún séð svartklæddan mann berja með skóflu á bílskúrshurðina á heimilinu. Kallaði hún á hann og skipaði honum að fara en brotaþoli fór út til að vísa honum í burtu en kom blóðugur og særður til baka eins og áður segir.
Lögregla fékk myndbönd úr öryggismyndavélum og lýsingar af geranda. Hófst umfangsmikil leit að manninum sem fannst loks í íbúð í Garðabæ þar sem hann var handtekinn um klukkan 1:00 um nóttina.
Daginn eftir var tekin skýrsla af manninum og sagðist hann ekkert kannast við árásina. Sagðist hann hafa gleymt hlaupahjóli fyrir utan bílskúrinn sem hann var að berja. Einnig sagðist hann hafa orðið fyrir árás fjögurra manna.
Þegar honum voru sýndar myndir af hnífnum sem notaður var við áraásina sagðist hann þekkja hnífinn. Þetta væri hnífur sem hann væri alltaf með á sér, vafinn í vasaklút. Seinna í skýrslutökunni vildi hann draga allt sem hann hafði sagt um hnífinn til baka.
„Virtist varnaraðili ekki átta sig á aðstæðum og sýndi ekki minnstu iðrun. Framburður hans var nokkuð samhengislaus, talaði hann nokkuð um geimverur, fór um víðan völl og kvaðst ekki vita hvað væri raunverulegt,“ segir í úrskurðinum.
Í annarri skýrslutöku, þann 4. júlí, viðurkenndi hann að hafa stungið brotaþola en sagði það hafa verið sjálfsvörn.
Þessi framburður rímar hins vegar ekki við framburð annarra vitna að árásinni. Meðal annars son brotaþola, sem sagði að maðurinn hefði ráðist á hann. Sagðist hann ekki þekkja manninn en hefði heyrt af honum og að hann hefði haft samband við sig á Facebook Messenger vegna hlaupahjóls.
Fram kemur að maðurinn eigi langa brotasögu að baki og er skráður sem sakborningur í 67 málum lögreglu. Meðal annars hefur hann hlotið dóm fyrir líkamsárás og vopnalagabrot. Sagt er að hann virðist í stjórnlausri neyslu fíkniefna og að andlegt ástand hans sé mjög bágborið. Er gæsluvarðhald yfir honum framlengt til 27. ágúst.