Dæmi eru um að skemmtiferðaskip hafa farið strax af stað þegar óttast var um flóðbylgju vegna jarðskjálftans mikla við Rússland. Farþegar voru skildir eftir í höfn, logandi hræddir.
Breska blaðið The Daily Mail greinir frá þessu.
Jarðskjálftinn var 8,8 á Richter-kvarða, austan við Kamtjakaskaga í Rússlandi í morgun. Gefnar voru út flóðbylgjuviðvaranir víða við strendur Kyrrahafs, svo sem í Japan, Kólumbíu, á vesturströnd Bandaríkjanna og á Hawaii eyjaklasanum.
Þar var einmitt þar sem skemmtiferðaskip fór af stað og skildi breska ferðamenn eftir í höfn. Margir þeirra fóru strax á samfélagsmiðla og lýstu yfir hneykslan sinni.
„Flóðbylgja nálgast Hawaii og skemmtiferðaskipið er að fara án fólks. Algjörlega klikkað,“ sagði einn þeirra. En búist var við öldum allt að þriggja metra háum á eyjunum.
„Við komumst út á höfn en skipið er að fara,“ sagði ein kona. „Skipið er að fara og við ætlum að reyna að komast ofar í landið. Fólk er í uppnámi og ég er ekki að gera lítið úr þessu ástandi. Ég er að segja að þetta er brjálað, ringulreið, enginn veit hvað er að gerast, rútubílstjórinn vissi ekkert hvað var að gerast.“
Dæmi var um að sumir fjölskyldumeðlimir væru komnir um borð en aðrir hefðu verið skildir eftir í landi. En skipið sigldi að öruggara hafsvæði.