Undanfarið hefur borið mikið á fréttum af ítrekuðum þjófnuðum á díselolíu og bensíni. Eins og DV greindi fyrst allra fjölmiðla frá var hundruðum lítra af díselolíu stolið frá fyrirtækinu Fraktlausnir. Það mál hefur verið mikið til umfjöllunar síðan og sömu aðilar og grunaðir eru um þjófnaðinn hafa verið bendlaðir við önnur sambærileg mál og einnig að hafa stolið brúsum til að nota undir ránsfenginn. Töluvert hefur borið á því að bílar með bensíni og olíu séu geymdir á bílastæðinu við Seljakirkju í Reykjavík og er talið mögulegt að það tengist þessum málum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði síðan eftir upplýsingum fyrr í dag um hópinn sem grunaður er um þjófnaðinn hjá Fraktlausnum.
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er síðan greint frá því að fyrr í dag hafi verið tilkynnt um þjófnað á olíu úr beltagröfu í Hafnarfirði og að málið sé í rannsókn. Hvort grunur sé um að þarna sé um þessa sömu aðila að ræða og grunaðir eru um þjófnaðinn frá Fraktlausnum og í öðrum málum þar sem olíu og bensíni hefur verið stolið að unfanförnu kemur ekki fram.