fbpx
Fimmtudagur 10.júlí 2025
Fréttir

Vikulega heimsótti Örn konu sem keyrði á hann 5 ára gamlan – „Dróst með bílnum 36 metra“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 10. júlí 2025 12:00

Örn Árnason. Mynd: Þjóðleikhúsið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Örn Árnason leikari hefur unnið sleitulaust frá því að hann útskrifaðist fyrir 43 árum. Segir hann helgarfrí hafa litla þýðingu fyrir honum. Örn var 29 ára árið 1987 þegar hann varð landsþekktur sem Afi okkar allra á sjónvarpsskjánum. Segist hann hafa alist upp við það að þegar sjónvarpið kom árið 1966 hafi foreldrar hans ekki stokkið til og keypt tæki.

„Svo lendi ég í því þegar ég fimm eða sex ára að ég er að leika mér úti að vetri til og það er keyrt á mig. Ég festist undir bílnum, eldgömlum svörtum Benz, og dróst með honum 36 metra niður Bólstaðarhlíðina.“

Segir Örn í viðtali við Söndru Barilli og Jóhann Alfreð í Morgunkaffinu á Rás 2 að konunni sem keyrði bílinn hafi brugðið allhressilega. „Eðlilega, hún hélt að hún hefði stútað mér. Ég var alveg heill, einhver hélt yfir mér verndarhendi þetta augnablik.“

Segir Örn að konan hafi heimsótt hann á spítalann og minnist hennar sem „skælandi og þuklandi“ sig allan. Hann hafi horft á hana forviða og lítið skilið. „Hún trúði hreinlega ekki að ég væri alheill.“

Eftir atvikið fór Örn til konunnar alla laugardaga og horfði á ameríska sjónvarpið, þar sem foreldrar hans áttu ekki sjónvarp. Þannig kynntist hann þáttum á borð við Bonanza, Felix the cat og Kafteini kengúru, eða Captain Kangaroo, sem var gamall skipstjóri og varð síðar meir fyrirmyndin að Afa.

Örn útskrifaðist sem leiðsögumaður frá Leiðsöguskóla MK fyrir nokkrum árum og í sumar eru þættir hans Steinsnar frá þjóðvegi sýndir á RÚV þar sem Örn bregður sér í hlutverk leiðsögumanns og ferðast um áhugaverða staði örskammt frá þjóðveginum. 

Hlusta má á viðtalið við Örn í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt