fbpx
Miðvikudagur 21.maí 2025
Fréttir

Vilhjálmur spældur og krefst svara frá olíufélögunum – „Þetta eru ekkert annað en svik“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 20. maí 2025 15:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins segir græðgi olíufélaganna á Íslandi eiga sér engin takmörk. Nú hafi heimsmarkaðsverð á olíu lækkað gífurlega síðustu 12 mánuði og á sama tíma hafi íslenska krónan styrkst um 7 prósent gagnvart dollaranum. En bensínverð hafi þó aðeins lækkað um 2,8 prósent. Það sama eigi ekki við þegar heimsmarkaðsverðið hækkar, þá séu olíufélögin snögg að hækka samdægurs til samræmis.

Vilhjálmur skrifar á Facebook:

„Græðgin á sér engin takmörk! Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um á þriðja tug prósenta á síðustu 12 mánuðum. Krónan hefur styrkst um 7% gagnvart dollara. En bensínverð á Íslandi? Það hefur einungis lækkað um 2,8%.

Þegar olía hækkar, hækka dælurnar samdægurs. En þegar hún lækkar? Þá eru það birgðir, skattar og „aðrir kostnaðarliðir“ sem halda verðinu uppi – þangað til gleymist að lækka það yfirhöfuð.“

Vilhjálmur minnir á að í mars á síðasta ári hafi aðilar vinnumarkaðarins undirritað hóflega kjarasamninga, og gert það í góðri trú, gegn loforði Samtaka atvinnulífsins um að verðlagi yrði þá stillt í hóf.

„Hvar er það hóf núna? Hvar eru skýringarnar? Hvar er sanngirnin? Hvernig á að vera hægt að vinna bug á verðbólgu ef aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins ætla að halda áfram sinni taumlausu græðgi?“

Svo virðist vera sem að aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins ætli sér að stinga öllum ávinningi af lækkunum á heimsmarkaði og styrkingu krónunnar beint í vasann, og það á kostnað almennings.

„Þetta eru ekkert annað en svik við samfélagssáttmálann sem kjarasamningarnir byggðu á.
Við krefjumst lækkunar sem skilar sér alla leið til fólksins. Við krefjumst einnig svara og skýringa frá forsvarsmönnum olíufélaganna hvernig stendur á því að gríðarleg lækkun á heimsmarkaðsverði og styrking á krónunni gagnvart dollara skili sér ekki með eðlilegum og réttlátum hætti til neytenda.“

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda hefur einnig gagnrýnt olíufélögin fyrir að draga lappirnar með að lækka verð á bensíni. Eldsneytisverð á Íslandi hafi ríka tilhneigingu til að fara hratt upp en hægt niður. Hann rekur þetta til fákeppnismarkaðar, sbr. viðtal Runólfs hjá Reykjavík síðdegis fyrir nokkrum vikum. Runólfur sagði í samtali við RÚV að að verð á íslandi raðist frekar af tilfinningu en heimsmarkaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt