fbpx
Föstudagur 07.nóvember 2025
Fréttir

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 16. janúar 2025 15:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur staðfest ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að neita konu um bætur út af meintum læknamistökum. Konan hafði greinst með brjóstakrabbamein þrátt fyrir að hafa gengist undir fyrirbyggjandi brjóstnám. Bent var á í málinu að þó talað sé um fyrirbyggjandi aðgerð þegar farið er í brjóstnám þá er í raun aðeins verið að minnka áhættu á krabbamein. Fyrir konur með stökkbreytinguna BRCA2 sé aukin áhætta enn til staðar eftir aðgerð.

Konan sótti um bætur árið 2022 því hún taldi sig hafa orðið fyrir vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu. Hún er með genastökkbreytinguna BRCA2 sem meðal annars stóreykur líkur á brjóstakrabbameini. Kona sem ekki hefur stökkbreytinguna hefur um 13 prósent líkur á því að greinast með brjóstakrabbamein á lífsleiðinni. Áhætta konu sem er með BRCA2-breytingu er um 70 prósent.

Konum með stökkbreytinguna standa til boða fyrirbyggjandi aðgerðir á borð við brjóstnám. Konan fór í slíka aðgerð á báðum brjóstum. Eftir aðgerðina tilkynnti læknir konunni að forstigsbreytingar hefðu fundist í vinstra brjósti hennar. Taldi læknirinn þó aðspurður að ekkert tilefni væri til að fjarlægja eitla í holhönd eða til að halda konunni í frekara eftirliti. Síðar komst konan að því að hún hafi greinst með góðkynja breytingar ásamt litlu svæði með forstigsbreytingum í báðum brjóstum.

Nokkru eftir aðgerðina fór konan að finna fyrir verk í hægra brjósti. Hún fór þá í frekari rannsóknir og greindist loks með brjóstakrabbamein. Hún þurfti því að undirgangast sex mánaða lyfjameðferð ásamt geislameðferð og verður á andhormónameðferð næsta áratuginn.

Konan taldi að læknamistök hefðu átt sér stað. Rétt hefði verið, þar sem hún greindist með forstigsbreytingar eftir brjóstnámið, að fjarlægja eitla úr holhönd og fylgjast náið með þróuninni. Það var ekki gert og því hafi hún greinst með krabbamein síður en ella.

Læknir sem kom að meðferð hennar benti úrskurðarnefndinni á að konan virðist hafa misskilið hvað felst í brjóstnámi. Hún hafi talið að það ætti að koma í veg fyrir að hún fengi brjóstakrabbamein. Það sé ekki svo heldur sé um áhættuminnkandi aðgerð að ræða. Áhættan sé því enn til staðar þó að hún sé minni.

Læknirinn sagði í svörum sínum við kæru konunnar:

„Því er haldið fram í kvörtun að A fór í brottnám brjósta sem væri fyrirbyggjandi og ætti því að koma í veg fyrir að hún fengi brjóstakrabbamein. Því miður er ekki hægt að tryggja að einstaklingar sem fara í áhættuminnkandi aðgerð fái ekki brjóstakrabbamein á lífsleiðinni. Aðgerðin er áhættuminnkandi og minnkar líkur á að greinast með brjóstakrabbamein en aðgerðin er ekki fyrirbyggjandi. Hér er fullyrðing í kvörtunarbréfi um áhættuminnkandi aðgerðir röng.“

Þó að sýni úr brjóstum hafi sýnt forstigsbreytingar þá hafi það verið í kjölfar þess að brjóstin voru fjarlægð og því ekkert tilefni til að ætla að frekari meðferð væri nauðsynleg.

Úrskurðarnefndin, sem meðal annars var skipuð lækni, benti á að þrátt fyrir fyrirbyggjandi aðgerð á borð við brjóstnám á báðum brjóstum þá hafi konan eftir sem áður verið í aukinni áhættu á að greinast með krabbamein tengt genastökkbreytingunni. Þessi áhætta sé til staðar sama hversu vel er skimað. Var það mat nefndarinnar að í þessu máli hafi meðferð konunnar verið hagað eins vel og unnt væri og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Því væri ekki um bótaskyldu að ræða.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum
Nova flytur á Broadway
Fréttir
Í gær

Sauð upp úr á Þórshöfn – Kona ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás

Sauð upp úr á Þórshöfn – Kona ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás
Fréttir
Í gær

Halldór vill að lögreglan rannsaki betur andlát systur hans – „Því þetta er mjög óþægilegt“

Halldór vill að lögreglan rannsaki betur andlát systur hans – „Því þetta er mjög óþægilegt“
Fréttir
Í gær

Ákærður fyrir ofbeldi gegn starfsfólki félagsþjónustunnar á Dalvík – Frelsissvipti starfsmann

Ákærður fyrir ofbeldi gegn starfsfólki félagsþjónustunnar á Dalvík – Frelsissvipti starfsmann
Fréttir
Í gær

Innflytjendur mótmæla niðurskurði til íslenskukennslu – „Hvernig ætlum við að gera þetta“

Innflytjendur mótmæla niðurskurði til íslenskukennslu – „Hvernig ætlum við að gera þetta“
Fréttir
Í gær

Starfsmaður ríkissaksóknara sakaður um húsbrot, eignaspjöll og þjófnað

Starfsmaður ríkissaksóknara sakaður um húsbrot, eignaspjöll og þjófnað
Fréttir
Í gær

„Við sigldum í burtu, en fórum aldrei frá Flateyri“

„Við sigldum í burtu, en fórum aldrei frá Flateyri“