Springsteen kom fram á kosningafundi Kamala Harris í síðustu viku og flutti nokkur laga sinna. Á milli laga ræddi hann við fundargesti og sagði þeim að Harris muni vernda lýðræðið og berjast fyrir frelsi kvenna til að taka ákvörðun um barneignir.
Sky news segir að hann hafi sagst vilja forseta sem „virði stjórnarskrána“ og „sé ekki ógn við frelsi“ og beindi spjótum sínum þar að Trump og sagði hann ekki hafa þessi gildi í hávegum.
„Hann skilur ekki þessa þjóð, sögu hennar eða hvað felst í því að vera Bandaríkjamaður,“ sagði Springsteen og bætti við að Trump „bjóði sig fram til að vera harðstjóri“.
Barack Obama, fyrrum forseti, steig á svið á eftir Springsteen og sagði að „undarleg“ hegðun Trump „þýði ekki að forsetatíð hans verði ekki hættuleg“. Hann benti á ummæli John Kelly, fyrrum starfsmannastjóra Trump, sem hefur sagt að Trump vilji að hershöfðingjar sínir séu eins og Adolf Hitler.