Á þennan veg má túlka ummæli Bruno Kahl, yfirmanns þýsku leyniþjónustunnar. Hann segir að Rússar muni hugsanlega ráðast á NATÓ innan skamms.
„Í síðasta lagi við lok þessa áratugar verður rússneski herinn í standi til að ráðast á NATÓ,“ sagði hann að sögn JP Post þegar hann tók þátt í fundi þýskrar þingnefndar í Berlín á mánudaginn.
„Kreml lítur á Vesturlönd og þar með Þýskaland sem óvini,“ sagði hann einnig.
Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, hefur ítrekað hótað NATÓ stríði. Það gerði hann meðal annars í september þegar hann sagði að það jafngildi stríðsyfirlýsingu ef Úkraína fær heimild til að nota vestræn flugskeyti til árása á skotmörk í Rússlandi.
„Það mun þýða að NATÓ-ríkin, Bandaríkin og Evrópuríki, séu í stríði við Rússland. Ef það gerist, þá munum við taka viðeigandi ákvarðanir varðandi viðbrögð við ógninni sem steðjar að okkur,“ sagði Pútín þá að sögn CNN.