Evrópa á fljótlega að byrja að efla heri sína og undirbúa sig undir að eftir sex til átta ár verði Rússland reiðubúið til átaka við NATÓ og ESB. Þetta sagði Andrius Kubulius, sem fer með varnarmál í framkvæmdastjórn ESB, í september. Hann er fyrrum forsætisráðherra Litháens og einarður stuðningsmaður Úkraínu.
Hann er einn af mörgum hörðum andstæðingum Rússlands sem Ursula von der Leyen, formaður framkvæmdastjórnarinnar, útnefndi í mikilvægar stöður í nývalinni framkvæmdastjórn sambandsins.
Innrás Rússa í Úkraínu og vaxandi hernaðarógn, sem steðjar að Evrópu frá Rússlandi, höfðu mikil áhrif á samsetningu nýju framkvæmdastjórnarinnar sem bíður þess nú að Evrópuþingið samþykki hana en það gerist væntanlega í nóvember.
Kaja Kallas, fyrrum forsætisráðherra Eistlands, mun fara með utanríkis- og öryggismál sambandsins auk þess að vera varaformaður framkvæmdastjórnarinnar. Hún er einnig þekkt fyrir harða stefnu sína gagnvart Rússlandi.
Það sama á við um Henna Virkkunen, frá Finnlandi, sem er nýr varaformaður öryggis- og lýðræðismála í framkvæmdastjórninni.
Marta Mos, frá Slóveníu, er nýr stækkunarstjóri sambandsins og verður hlutverk hennar meðal annars að koma Úkraínu nær aðild. Mos er einnig mjög gagnrýnin á Pútín.
Með þessari samsetningu framkvæmdastjórnarinnar sendir Ursula von der Leyen skýra aðvörun til Pútíns um að ESB hafi í hyggju að halda áfram stuðningi við Úkraínu og í raun muni sambandið bæta í. Einnig á nýi varnarmálastjórinn að reyna að fá aðildarríkin til að auka útgjöld sín til varnar- og öryggismála.