Þann 14. júní verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli manns sem Héraðssaksóknari hefur ákært fyrir tilraun til manndráps.
Þinghöld eru lokuð í málinu. Í ákæru sem DV hefur fengið afhenta frá héraðssaksóknara er nafn ákærða afmáð sem og dagsetning glæpsins, en þó tekið fram að atvikið hafi átt sér stað aðfaranótt laugardags á þessu ári.
Hinn ákærði er sagður hafa ráðist með hnífi á annan mann, á akbraut í Reykjavík. Hann hafi stungið hnífnum í vinstri öxl og hægri síðu brotaþola með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut opið sár á vinstri öxl, opið sár hliðlægt framanvert á brjóstkassa hægra megin og loft – og blóðbrjóst.
Héraðssaksóknari krefst þess að hinn ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er þess krafist að hnífurinn sem hann beitti í árásinni verði gerður upptækur.
Fyrir hönd brotaþola er gerð krafa um miskabætur upp á tæplega 5,2 milljónir króna.