Landsréttur vísaði í fyrradag frá dómi máli manns gegn Félagsbústöðum hf. en hann kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að þeim væri heimilt að láta bera hann út úr leiguíbúð vegna vangoldinnar leigu. Landsréttur vísaði málinu frá á þeirri forsendu að maðurinn hefði ekki lögvarða hagsmuni af endurskoðun útburðarins þar sem hann hefði þegar farið fram, en maðurinn var borinn út úr íbúðinni þann 15. maí síðastliðinn.
Í aðfararbeiðni var skuld leigjandans við Félagsbústaði skögð nema kr. 2.033.121. Áður en aðfararbeiðnin var gefin út hafði maðurinn fengið greiðsluáskorun þar sem varað var við því að yrði skuldin ekki gerð upp innan sjö daga yrði leigusamningi rift. Sinnti maðurinn ekki þeirri áskoðun. Var honum þá send tilkynning um riftun en hann rýmdi ekki eignina. Hann var síðan borinn út úr íbúðinni.
Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var tekist á um hvort leigusamningnum hefði verið löglega rift. Leigjandinn sagði íbúðina hvorki hafa haldið vatni né vindum og hann hafi átt kröfu á lækkun húsaleigu sem var 122.880 krónur á mánuði, en einnig átti hann að greiða tæplega 10 þúsund krónur í hússjóð. Byggði leigjandinn mál sitt meðal annars á því að hann hafði verið þvingaður til að gera leigusamninginnn við Félagsbústaði og þar með þvingaður til að greiða gjöld vegna hússjóðs og þrifa á sameign, sem leigusalinn beri lögum samkvæmt ábyrgð á. Hafi kærunefnd húsamála úrskurðað form leigusamningsins sem ekki löglegan samning vegna sérstaks húsnæðisstuðnings sem hann átti að fá.
Það var mat héraðsdóms að Félagsbústöðum væri heimilt að fá manninn, og allt sem honum tilheyrir, borinn út úr íbúðinni með beinni aðfarargerð.
Úrskurðina má lesa hér.