Kvikuhlaup er hafið í Sundhnúksgígaröðinni. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofunnar þar sem segir: „Áköf jarðskjálftavirkni stendur yfir á Sundhnúksgígaröðinni, ásamt aukinni skjálftavirkni sýna gögn breytingar í borholuþrýstingi og aukin aflögun. Túlkun veðurstofunnar er því að kvikuhlaup sé hafið og geti endað í eldgosi á næstu klukkutímunum.“
Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri hjá almannavörnum, biður fólk um að vera rólegt og sýna stillingu í samtali við RÚV. Hún segist ekki vera með tölu yfir þá sem eru í Grindavík en almannavarnir séu þó með ágætis yfirsýn. Þar hafi margir verið í vinnu og fólk farið að þekkja rýmingarferlið.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, segir að dvalið hafi verið í 38 húsum í Grindavík síðustu nótt. Ef af gosi verður þá sé tímasetningin góð. Allar leiðir eru greiðfærar úr bænum en fólki er sérstaklega bent á Nesveg.