Tilkynnt var um slagsmál fyrir utan skyndibitastað í miðbænum í nótt og þá handtók lögregla mann eftir að hann sparkaði í bifreið. Þegar ökumaðurinn fór út úr bílnum sló maðurinn hann í höfuðið með bjórglasi. Þá var ölvuðum vísað út af hóteli í miðborginni í nótt.
Í Skeifunni var maður handtekinn eftir að hann ónáðaði gesti verslunar. Starfsmaður skarst í leikinn og reyndi að vísa manninum út en það fór ekki betur en svo að maðurinn veittist að starfsmanninum í tvígang. Ekki er vitað um ástand starfsmannsins.
Í Kópavogi var kveikt í klósettkamri utan við vinnuskúr í Kópavoginum og var búið að slökkva eldinn þegar lögregla kom á vettvang.
Tilkynnt var um innbrot í verslun í hverfi 105 og var gerandinn nýfarinn af vettvangi þegar lögregla kom. Hann fannst ekki þrátt fyrir mikla leit.
Loks var tilkynnt um mann sem svaf í eða við bifreið í bílakjallara. Þegar lögregla kom á vettvang var maðurinn sofandi hálfur út úr bifreiðinni. Grunur leikur á að hann hafi verið undir áhrifum vímuefna. Þýfi var í kringum bifreiðina og var fátt um svör þegar hann var vakinn. Maðurinn var handtekinn og er málið í rannsókn.