Ef af þessu verður, mun það draga varnarbandalagið enn frekar inn í stríðið. Vesturlönd hafa hvað eftir annað fært rauðu línuna sína, sem segir til um hvaða vopn og stuðning er hægt að veita Úkraínu, til án þess að vera sjálf álitin aðili að stríðinu.
Fyrst eftir innrás Rússa í febrúarlok 2022 þvertóku flest vestræn ríki fyrir að láta Úkraínumönnum banvæn vopn í té af ótta við að það myndi reita Vladímír Pútín til reiði.
Eins og frægt er ákváðu Þjóðverjar að senda Úkraínu 5.000 hermannahjálma, Danir sendu skotheld vesti og önnur ríki létu Úkraínu aðeins fá varnarvopn.
En þessi sjálfsákveðna rauða línu hefur færst mikið til síðan þetta gerðist og Úkraínumenn hafa fengið sífellt fullkomnari og betri vopn, til dæmis háþróaða skriðdreka, loftvarnarkerfi, flugskeyti, langdrægar fallbyssur og bráðum fá þeir fyrstu F-16 orustuþoturnar.
Jótlandspósturinn segir að nú séu nokkur NATÓ-ríki að íhuga að taka enn eitt skrefið til stuðnings Úkraínu og senda hermenn til landsins. Rússnesk stjórnvöld hafa varað mjög við þessu og segja að ef af þessu verði dragist NATÓ enn frekar inn í stríðið.
Hlutverk hermannanna, ef þeir verða sendir til Úkraínu, verður að þjálfa nýja úkraínska hermenn svo þeir geti tekið þátt í vörnum landsins.
Það að NATÓ-hermenn annist þjálfun úkraínskra hermanna í Úkraínu mun draga Evrópu og Bandaríkin enn dýpra og markvissara inn í stríðið og mörg bandalagsríki óttast að þetta geti farið yfir rauðu línu Pútíns.
En vandinn er að Úkraínu bráðvantar hermenn og segir The New York Times að Úkraínumenn hafi beðið NATÓ og Bandaríkin um aðstoð við að þjálfa að minnsta kosti 150.000 nýja hermenn og það helst nær víglínunni en í dag en margir úkraínskir hermenn fá nú þjálfun á Vesturlöndum, til dæmis í Þýskalandi og Bretlandi.
Fram að þessu hafa Bandaríkin og flest önnur NATÓ-ríki hafnað öllum tillögum um að senda hermenn til Úkraínu en Charles Q. Brown, æðsti yfirmaður bandaríska heraflans, sagði fyrir helgi að það virðist vera óhjákvæmilegt að senda hermenn til Úkraínu. „Það mun gerast með tímanum,“ sagði hann að sögn The New York Times.