Konan og eiginmaður hennar unnu 2,3 milljónir danskra króna, 46 milljónir íslenskar, í Víkingalottóinu fyrir skemmstu. Í tilkynningu Danske Spil til danskra fjölmiðla kemur fram að um sé að ræða eldri hjón sem eru ekki vön því að eyða peningum sínum í óþarfa.
Rétt áður en þau unnu þann stóra höfðu þau keypt sér nýja uppþvottavél en það var bara vegna þess að gamla vélin, sem þau höfðu átt í 25 ár, gaf sig. Ísskápurinn, sem er töluvert eldri, virkar þó enn. En það var þó eitt sem þau ákváðu að leyfa sér að endurnýja eftir að vinningurinn kom inn á reikninginn.
„Það fyrsta sem við gerðum var að kaupa okkur stærra sjónvarp. Alveg sama hvert maður fer í heimsókn, það er stórt sjónvarp á hverju heimili. Okkur þótti okkar 30 tommu sjónvarp vera heldur lítið í samanburðinum,“ segir konan sem tekur þó fram að nú eigi þau hjónin tvö sjónvörp, enda það gamla enn þá í fullu fjöri.
„Við ætlum að eiga það þangað til það gefur upp öndina. Við hendum bara hlutum sem virka ekki lengur,“ segir hinn skynsami vinningshafi.