Þolandi í alvarlegu ofbeldismáli í Reykholti í Biskupstungum er palestínskur maður og meintur gerendur eru tengdir fjölskylduböndum. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Í morgun sendi Lögreglan á Suðurlandi frá sér tilkynningu þess efnis að þrír karlar og ein kona hefðu verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 24. maí næstkomandi vegna gruns um frelsissviptingu, líkamsárás og fjárkúgun. Samkvæmt frétt RÚV hefur hinn palestínski þolandi ofbeldisins verið búsettur hér á landi í mörg ár.
Tilkynning lögreglunnar var eftirfarandi:
„Rannsókn á alvarlegu ofbeldisbroti í uppsveitum Árnessýslu
Lögreglan á Suðurlandi er með til rannsóknar meinta frelsissviptingu, líkamsárás og fjárkúgun í heimahúsi í Reykholti. Þrír karlmenn og ein kona hafa sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins. Gæsluvarðhaldið var nú síðastliðinn föstudag framlengt til 24. maí næstkomandi og er á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Málið kom upp í lok apríl og er sá er misgjört var við erlendur ríkisborgari sem hefur verið hér á landi í langan tíma. Allir grunaðir í málinu eru Íslendingar.
Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins og hefur notið aðstoðar lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu, embættis Ríkislögreglustjóra og embættis Héraðssaksóknara.
Rannsókn málsins er enn í fullum gangi og er lögreglu því ekki unnt að veita frekari upplýsingar um málið.“
Sem fyrr segir eru hinir meintu gerendur í málinu tengdir fjölskylduböndum og er sá elsti á sjötugsaldri. Konan og einn karlanna eru á þrítugsaldri og einn gerandinn er undir tvítugu.
Palestínumaðurinn er sagður hafa leigt bílskúrsíbúð af einum gerandanna. Heimildir RÚV herma að fólkið hafi haldið manninum í kjallara hússins, haft af honum peninga og gengið ítrekað í skrokk á honum. Nokkrum dögum eftir frelsissviptinguna eru þau talin hafa keyrt manninn upp á Keflavíkurflugvöll og sent hann úr landi, mjög illa farinn. Ekki liggur fyrir hvert hann var sendur.