Karlmaður var sýknaður í Héraðsdómi Austurlands af ákæru um nauðgun þann 22. apríl. Dómari sagðist ekki efast um upplifun konunnar að gegn henni væri brotið en hins vegar gat hann ekki séð að manninum hefði mátt vera það ljóst að konan væri samförunum mótfallin.
Dómurinn var birtur nýlega en þar er farin sú óvenjulega leið að greina aðeins frá ákæru og niðurstöðu dómara. Með öðrum orðum var ekki gerð grein fyrir málavöxtu, framburði ákærða, brotaþola og vitna öðruvísi en með stuttri skírskotun í niðurstöðuhluta.
Ákærða var gert að sök að hafa, eftir að samfarir hófust með vilja beggja, gerst sekur um nauðgun með ofbeldi og ólögmætri nauðung.
Fram kemur að ákærði og konan kynntust á skemmtistað og létu þar vel hvort að öðru. Þau fóru heim til ákærða og stóð til að stunda kynlíf. Eftir að hafa stundað kynlíf, með vilja beggja, nokkra stund hafi kynlífið orðið harkalegt. Þegar kom að tilteknum kynlífsathöfnum upplifði konan mikla hörku og sársauka. Hún hafi reynt að ýta ákærða af sér en hann haldið áfram. Ákærði hafi tekið hana kverkataki, rassskellt hana, togað í hár hennar og tekið mjög harkalega á henni.
Konan greindi frá því fyrir dómi að henni hafi staðið ógn af ákærða sem var mjög „massaður“. Hann hafði uppi hótanir og ofbeldisfullt orðbragð á meðan á kynferðisathöfnum stóð og því þorði hún ekki að andmæla gjörðum hans heldur hlýddi í einu og öllu án viðbragða.
Ákærði mótmælti þessari lýsingu og sagði konuna sjálfa hafa lýst vilja til harkalegs kynlífs og í engu gefið til kynna hræðslu á meðan á kynlífinu stóð. Hún hafi ekkert kvartað og aldrei sagt að hún vildi hætta kynlífinu.
Konan sagði að 40 mínútum eftir að samfarir hófust hafi hún lýst því yfir að hún væri þreytt og búin á því. Hafi ákærði engu skeytt um þessi orð og hún ekkert sagt því hún var hrædd. Hún hafi því beinlínis upplifað það sem kynferðisbrot er hann hélt áfram. Hún hafi ekki þorað að segja annað en „kláraðu bara“.
Vitni báru um vanlían konunnar eftir þessa nótt en eins leitaði hún á sjúkrahús þar sem áverkar voru skráðir niður. Hún var með marbletti, bólgu, háræðaslit og áverka við leggangaop.
Dómari rakti að þó að samfarir eigi sér stað með samþykki beggja í upphafi þá sé hægt að afturkalla þetta samþykki hvenær sem er. Eins afmarkast samþykki við tiltekið tilvik eða tilteknar kynferðislegar athafnir sem samþykkið nær til.
Dómari rakti að konan væri einlæg og trúverðug og fengi framburður hennar stoð í vætti vitna. Ekki þyrfti að efast um að þessa nótt hefði konan upplifað nauðgun. Dómari rakti að hægt sé að sýna með látbragði og athafnaleysi að ekki sé lengur til staðar samþykki, líkt og konan kvaðst hafa gert. Hún greindi svo frá að ákærða hefði átt að verða ljóst að hún vildi þetta ekki lengur. Dómari sagði um það:
„Að því leyti verður að hafa í huga hversu greinilega ákærða hafi verið gerð fyrir nefndum vilja brotaþola og að ásetningur hans hafi staðið til þess að ná fram kynferðismökum við brotaþola án samþykkis hennar með ofbeldi og ólögmætri nauðung, en eigi er heimilt að refsa fyrir gáleysisbrot.“
Vísaði dómari til þess að nauðgun er svokallað ásetningsbrot þ.e. gerandi þarf að hafa vitað eða mátt vita að samþykki væri ekki fyrir hendi. Ákærði í máli þessu hélt því fram að konan hefði allan tímann tekið virkan þátt í samförunum og ekki sýnt nein hræðslumerki sem hann hafi tekið eftir.
Um ásetning ákærða sé því orð gegn orði og því ekki hæg tað fullyrða að hann hafi haft ásetning til að nauðga og lög heimili ekki að sakfellt sé fyrir nauðgun af gáleysi. Maðurinn var því sýknaðu, þó dómari dragi upplifun brotaþola með engu í efa.