Í grein sinni skrifar Bragi um almenningssamgöngur til og frá Keflavíkurflugvelli og vísar í ummæli Guðmundar Daða Rúnarssonar, framkvæmdastjóra viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í gærmorgun.
Guðmundur sagði þar að þjónusta Strætó við flugstöðina væri fyrst og fremst fyrir starfsfólk flugvallarins og kvaðst ánægður með staðsetningu strætóskýla við flugstöðina. Í þættinum kom fram að gagnrýnt hefði verið hversu langt frá flugstöðinni strætóskýlin eru.
Bragi klórar sér í kollinum yfir þessu og segir að Keflavíkurflugvöllur hljóti þá að vera eini alþjóðaflugvöllurinn í heiminum þar sem almenningssamgöngur eru ekki hugsaðar fyrir viðskiptavini.
„Þessi skortur á grunnþjónustu fyrir farþega er ekki einungis bagalegur fyrir þau sem vilja komast á einfaldan og bíllausan hátt í millilandaflug, heldur ótrúlega slæm (og neyðarleg fyrir okkur sem þjóð) fyrsta upplifun þeirra sem heimsækja okkur,“ segir Bragi og nefnir dæmi.
„Eins og Þjóðverjarnir sem voru samferða mér úr flugi um daginn sögðu þegar þeir fundu engar samgöngur af vellinum: „That can‘t be right.“ Þeir eru eðlilega vanir því að á flugvöllum séu risastór skilti sem benda á almenningssamgöngur í borgina – því það er ekki eins og ferðalaginu ljúki á flugvellinum.“
Bragi bendir á að í fjölmörg ár hafi verið kallað eftir endurbótum og nútímavæðingu samgangna á flugvöllinn.
„Raunar lofaði fyrrverandi innviðaráðherra að málin yrðu skoðuð fyrir sumarið. Í fyrra. Ekkert bólar á tillögum og orð Guðmundar setja vissulega tóninn af hverju svo er. Samtök um bíllausan lífsstíl kalla eftir því að samtalið um almenningssamgöngur á Keflavíkurflugvöll sé tekið alvarlega. Það þarf engin að finna upp hjólið í þessum málum – einungis hugrekkið til að bjóða upp á þessa lágmarksþjónustu sem svo mörg kalla eftir.“