Ástþór skrifar þar um sjálfboðastörf sem atvinnurekendur virðast í auknum mæli auglýsa.
„Það sem er átt við með sjálfboðastöfum eru þau störf þar sem ekki eru greidd laun en innihalda mögulega fæði, uppihald og vasapeninga fyrir störfin. Algengast er að um sé að ræða ungt fólk af erlendu bergi brotið sem er í leit að ævintýrum og upplifun. En ævintýrið getur fljótt orðið að martröð og upplifunin neikvæð,“ segir Ástþór í grein sinni.
Hann segir að dæmi séu um að sjálfboðaliðar séu notaðir í efnahagslegri, virðisaukandi starfsemi. Bendir hann á að slík notkun á sjálfboðaliðum skekki heilbrigðan samkeppnismarkað og sé á skjön við kjarasamninga og þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.
„Það er ekki undir neinum kringumstæðum eðlilegt að hagnýta sjálfboðaliða til starfa í ferðaþjónustu, á hestaleigum eða til blandaðra starfa á sveitabýlum, svo dæmi séu tekin,“ segir hann.
Nefnir hann að séu sjálfboðaliðar fengnir til starfa í efnahagslegri, virðisaukandi starfsemi, beri að virða þær leikreglur sem gilda á vinnumarkaði.
„Það ber að greiða laun í samræmi við kjarasamninga, gera ráðningarsamning og launaseðla. Jafnframt að skilað sé vinnuréttargjöldum, lífeyrissjóð og sköttum til hins opinbera.“
Ástþór segir að því miður verði þau sem starfa innan verkalýðshreyfingarinnar vitni að því að sannarlega sé verið að hlunnfara fólk og eru sjálfboðastörf þar á meðal.
„Dugir í þeim efnum að nefna vefsíður eins og workaway.info þar sem oft á tíðum má sjá auglýst eftir sjálfboðaliðum, til þess að sinna virðisaukandi störfum, án þess að til standi að greiða laun og fara að leikreglum vinnumarkaðarins.“
Ástþór segir að ekki þurfi að dvelja við málefnið lengi til þess að sjá þann skaða sem íslenskt samfélag ber af svona athæfi.
„Þetta grefur undan réttindum vinnandi fólks, hinu opinbera verður af tekjum sem meðal annars eru notaðar til þess að halda hér uppi samfélagi og innviðum og eðlileg samkeppnisstaða fyrirtækja skekkist. Á sama tíma og atvinnulífið er í vexti ættum við að horfa til þess að hafna óeðlilegri hagnýtingu sjálfboðaliða sem og öðrum félagslegum undirboðum á vinnumarkaði.“
Ástþór segir að rétt eins og með önnur brot á vinnumarkaði þá vanti að eftirlitsaðilar fái ríkari heimildir og fjármagn – og loks að eftirlitsstofnanir séu efldar í stað þess að draga úr þeim.
„Þar stendur hnífurinn í kúnni. Boltinn liggur hjá ríkisvaldinu en við sem samfélag getum tekið meðvitaða ákvörðun um að taka ekki þátt í undirboðum á vinnumarkaði.“