Mikill viðbúnaður viðbragðsaðila er nú vegna vinnuslyss á Völlunum í Hafnarfirði. Íbúi segist í samtali við DV hafa séð 2-3 slökkviliðsbíla, þrjá sjúkrabíla og nokkra lögreglubíla á ferð um hverfið.
Vísir greinir frá því að það standi yfir vinna við að ná einum manni „undan fargi“ og hefur það eftir Stefáni Kristinssyni varðstjóra. Ekki liggur fyrir um hvers konar farg er að ræða.
RÚV greinir frá því að vettvangurinn sé byggingarsvæði við Áshamar á Völlunum í Hafnarfirði.
Uppfært kl. 14:23
Mbl.is greinir frá því maðurinn hafi fengið þakplötu sem hann var að steypa yfir sig, er platan gaf sig. Hann er sagður vera með meðvitund og vinna stendur yfir við að losa manninn.
Uppfært kl. 15:35
Það tókst að losa manninn undan plötunni og var hann fluttur á sjúkrahús. Ekki er vitað hve alvarlegir áverkar hans voru. (RÚV greindi frá).