Eldgosið í Sundhnúksgígaröðinni heldur áfram og eru núna tveir gígar virkir. Slokknaði á þriðja gígnum um páskana. Landris í Svartsengi hefur hins vegar ekki mælst síðustu daga. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.
„Mögulega er komið á jafnvægi í aðstreymi kviku inn undir Svartsengi og upp úr gígunum, en jarðefnafræðimælingar gætu staðfest það á næstunni,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
„Gasmengun berst til suðvesturs og síðar til vesturs og verður hennar líklega vart öðru hvoru í Grindavík og jafn vel í Höfnum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.