Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu þar sem landsmenn eru hvattir til þess að vera á varðbergi gagnvart mögulegum innbrotum um páskana.
„Nú þegar páskarnir eru fram undan og viðbúið að margir verði á faraldsfæti vill lögreglan ítreka að fólk láti vita um grunsamlegar mannaferðir (taki ljósmyndir ef slíkt er mögulegt) og að það skrifi líka hjá sér, t.d. bílnúmer eða jafnvel lýsingar á fólki, ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í nánasta umhverfi þess. Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða, hringja jafnvel dyrabjöllunni og þykjast vera að spyrja eftir einhverjum, og því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga,“ segir í tilkynningunni.
Þá er áréttað að fólk eigi ekki að vera feimið við að hafa samband við lögreglu vegna þessa. Betra sé að hringja einu sinni of oft en of sjaldan.
„Lögreglan vill ennfremur minna á mikilvægi þess að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum, t.d. að loka gluggum, þegar það fer að heiman og ekki er úr vegi að tilkynna nágrönnum um slíkt, en nágrannavarsla getur skipt sköpum þegar kemur að því að upplýsa innbrot eða koma í veg fyrir þau. Sérstaklega er minnt á að útiljós séu kveikt þar sem þau eru til staðar, hvort sem um ræðir bakatil við hús eða að framanverðu. Slíkt einfaldar nágrönnum að sjá umferð/mannaferðir við húsin. Sömuleiðis er mikilvægt að fólk upplýsi ekki um fjarveru sína fyrir allra augum þegar farið er í frí, t.d. með tilkynningu á samfélagsmiðlum. Lögreglan verður með hefðbundið eftirlit um páskana, en áhersla verður lögð á að fylgjast með íbúðarhúsnæði eins og kostur er,“ segir í tilkynningunni.
Upplýsingum má koma á framfæri í síma 444 1000 eða í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu vegna yfirstandandi innbrots skal undantekningarlaust hringja í 112.