Steinþór ræðir málið í samtali við Morgunblaðið í dag en um helgina greindi blaðið frá því að ökumenn sem leggja bifreið sinni næturlangt á einkastæðum Domus þurfi að greiða hátt í tíu þúsund krónur fyrir stæðið. Þurfa notendur að greiða fyrir stæðið í gegnum Parka-appið og er gjaldtaka allan sólarhringinn.
Steinþór gefur ekki mikið fyrir tal um aðgangsstýringu við umrædd bílastæði enda er enginn að fara í Röntgen Domus á nóttunni.
„Svona gjald er náttúrlega alveg út úr kortinu og væri miklu nær að fyrsta klukkustund væri hæst og síðan myndi mælirinn stoppa í t.d. fimm þúsund krónum, en ekki tíu þúsund eins og kom fram í grein hjá ykkur um helgina. Það stenst enga skoðun að rukka svona hátt gjald um miðja nótt og er ekkert annað en hrein græðgisvæðing,“ segir Steinþór við Morgunblaðið.
Hann vill meina að verið sé að fylgja einhverri pólitískri stefnu um að úthýsa einkabílnum úr miðbænum.