Inga skrifar þar um málefni eldri borgara og segir að ellefu þúsund eldri borgarar séu í neðstu þremur tekjutíundunum, þar af sex þúsund í sárri fátækt.
Inga segir að stjórnvöld haldi vísvitandi til streitu alvarlegum skorti á hjúkrunarrýmum og segir fullorðið fólk daga uppi á Landspítala löngu eftir að það er tilbúið til útskriftar.
„Það á ekki í nein hús að venda. Kjaragliðnun á launakjörum allra almannatrygginga heldur áfram, kjaragliðnun sem nálgast 100.000 kr. á mánuði ef litið er aftur til efnahagshrunsins 2008. Fátækt, skerðingar og vanvirðing eru slagorð stjórnvalda þegar kjör aldraðra eru annars vegar.“
Inga segir að 25 þúsund króna skerðingarmörkin sem eru við lífeyrissjóðsgreiðslur eldra fólks hafi ekki breyst í rúm tíu ár. Breytir þá engu hvernig efnahagsástandið er, hvort „óðaverðbólga“ ríki eða „brjálæðisvextir“ og segir Inga stjórnvöld hunsi alltaf neyðaróp fátækra.
„Það er nöturlegt að þurfa að viðurkenna að Ísland skrapar botninn meðal allra OECD-ríkjanna hvað lýtur að fjármagni sem veitt er til heilbrigðisþjónustu. Það er ótrúleg hræsni að hlusta á alþingismenn mæra velferð eldra fólks undir kjörorðinu „það er gott að eldast“ þegar staðreyndin er sú að þúsundir aldraðra mega lepja dauðann úr skel í sýndarveruleikaheimi félags- og vinnumarkaðsráðherra og fylgitungla hans.“
Inga rifjar svo upp fund í október síðastliðnum þegar Landssamband eldri borgara var með málþing um kjör eldra fólks á Hilton Reykjavík Nordica.
„Þar talaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra digurbarkalega um hvað hann hefði og væri að gera margt frábært fyrir aldraða. Á Íslandi væri gott að eldast! Eftir þessa sjálfsupphefð ráðherrans spurði ég gesti fundarins, sem troðfylltu salinn, hvort þeir þekktu á eigin skinni allt það jákvæða sem þeir hefðu fengið til sín í kjölfar gæsku ráðherrans. Það er skemmst frá því að segja að enginn þeirra, ekki einn einasti, hafði orðið var við neitt slíkt.“
Inga segir svo:
„Eitt af þeim „stóru“ verkum sem félags- og vinnumarkaðsráðherra stærir sig af eru tveir símsvarar á island.is sem hann telur réttlæta það að ganga gegn einróma vilja Alþingis í júní 2021 um að komið yrði á fót embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Hagsmunafulltrúa sem hefði það hlutverk að tryggja velferð aldraðra í hvívetna með því t.d. að kortleggja stöðu þeirra félagslega, fjárhagslega, heilsufarslega o.s.frv. Ég einfaldlega fæ ekki skilið hvernig ráðherra getur mögulega lítilsvirt löggjafarvaldið með þeim hætti sem hann gerir og mun ég leita svara við því.“
Inga segir að fólk hafi einfaldlega fengið nóg.
„Eldra fólk hefur fengið nóg af því að hlusta á ráðherra afsaka svikin loforð. Það hjálpar engum að skipa endalausar nefndir, ráð og stýrihópa til þess að skrifa fallegar klausur á pappír. Flokkur fólksins krefst raunverulegra aðgerða!“