Veðurstofa Íslands hefur lýst yfir óvissustigi vegna hugsanlegrar snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Í skeyti sem Veðurstofan sendi frá sér í gærkvöldi kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir því að veður gangi niður að ráði fyrr en að morgni laugardagsins 23. Mars næstkomandi. Gert er ráð fyrir mikilli úrkomu með þessu vetrarveðri.
„Þá verður einnig sérstaklega fylgst með stöðunni á Súðavíkurhlíð, Flateyrarvegi og Raknadalshlíð í Patreksfirði vegna mögulegrar snjóflóðahættu gangi spáin eftir,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Þar er enn fremur bent á að þetta kunni meðal annars að hafa samgöngutruflanir í för með sér en sem fyrr er vegfarendum bent á vef Vegagerðarinnar www.umferdin.is fyrir upplýsingar um færð á vegum auk www.vedur.is fyrir upplýsingar um veður og veðurhorfur.