Í umræddu skjáskoti er fjallað um hælisleitendur hér á landi og fullyrt að þeir hafi það býsna gott. Kona, Íris að nafni, bendir á það að „þeir fái allt frítt í apótekum“, þar á meðal fín krem, sjampó og lyf og þeir „tæmi“ jafnvel hillur.
Önnur kona, Kolbrún að nafni, segir síðan:
„Get því miður staðfest þetta með apótekin. Var að vinna í apóteki Hafnarfjarðar og við höfðum varla við að fylla á vörur og allt skrifað á ríkið. Allskonar dýrar vörur sem maður leyfir sér ekki sjálfur var hreinlega hamstrað út.“
Björn Leví gerði skjáskotið að umtalsefni á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir ýmislegt í fyrrgreindum fullyrðingum ekki eiga við rök að styðjast miðað við fyrirliggjandi gögn.
„Ég sé að það er verið að deila þessu skjáskoti dálítið og mig langar til þess að sýna fram á að þetta er ekki rétt fullyrðing um „höfum ekki við að fylla á vörur“ og „alls konar dýrar vörur sem maður leyfir sér ekki sjálfur var hreinlega hamstrað út“.“
Björn bendir á að hægt sé að fletta þessu öllu upp á vefnum opnirreikningar.is sem hann ákvað að gera eftir að hafa séð skjáskotið í umferð. Birtir hann sýnishorn af þeim gögnum í athugasemdum við færslu sína.
„Heildarupphæðin er rétt rúm milljón vegna vöruflokkanna „Vörur til skyndihjálpar“ og ein færsla um „Hreinlætisvörur, ræstingavörur“ upp á 2458 kr.
„Þetta er satt og algjörlega galið“ gæti litið þannig út fyrir nóvember á síðasta ári þar sem þessar vörur voru nær eingöngu keyptar þá. Nokkrar færslur eru í mars á síðasta ári líka. En í heildina fyrir árið er þetta ein milljón. Vörur til skyndihjálpar en ekki fín krem eða eitthvað slíkt,“ segir hann.
Bætir hann við að ef „fín krem“ hafi verið keypt fyrir þennan pening sé verið að ljúga á opnirreikningar.is. Bendir hann á að það varði við lög.
„Þá væri apóteki Hafnarfjarðar, eða vinnumálastofnun […] beinlínis skylda að upplýsa slíkt – en það er einmitt hægt út af tólum eins og opnirreikningar.is – en ef það er málið þá skal ég veðja við hvern sem er að það voru ekki hælisleitendur sem fengu þau fínu krem.“