Í greininni segir hún meðal annars frá því þegar hún fór að kaupa í matinn fyrir skemmstu.
„Fyrir framan verslunina vatt lítill maður sér að mér hálfgrátandi og bað um hjálp, hann ætti ekki fyrir mat. Hann var kengboginn og augljóslega af erlendum uppruna. Ég klappaði honum vingjarnlega á bakið og hvarf svo inn í búðin,“ segir hún.
„Svo þegar ég raðaði í körfuna leið mér fáránlega illa. Hvað ég hef það ótrúlega gott! Get keypt allt sem mig langar. Hef alltaf nóg að borða, líð ekki skort. Og hvað kemur mönnum til þess að betla mat rétt hjá? Þetta er örugglega mjög niðurlægjandi. Ég veit ekki hvort litli maðurinn var sérlega góður leikari, en ég gat ekki annað en gefið honum brauðið sem ég var búin að kaupa þegar ég fór úr búðinni.“
Úrsúla segir að eftir innkaupaferðina hafi ferðinni verið heitið á bókasafnið að kíkja í blöðin.
„Í Heimildinni var talað um hversu margar milljónir örfáir gæðingar á þessu blessaða landi fá á hverju ári. Tölur um 60, 70 og jafnvel fleiri milljónir á ári létu mig aftur hugsa til litla mannsins sem var að betla mat. Þessir menn sem þiggja ofurkaup, bónusa og þóknun „fyrir vel unnin störf“ ættu að skammast sín. Hvað gera menn við svona margar milljónir? Stofna eða kaupa sig inn í fleiri fyrirtæki? Gambla eins og í Matador-spili sem var vinsælt áður fyrr? Setja eitthvað annað á hausinn sem kostar fjölda manna atvinnu? Eða selja?“
Úrsúlu líst ekki á blikuna.
„Þetta er orðið ógeðslegt þjóðfélag. Margir kenna innflytjendum um hve erfitt er að „ná endum saman“. Þessi áróður kemur frá hægri vængnum á þinginu. Staðreyndin er sú að hagkerfið blómstrar vegna þess að innflytjendur nenna að vinna illa borguð störf sem enginn Íslendingur kærir sig um.“
Úrsúla segir að mansalsmálið sé eitt af skuggalegum hliðum sem hafa dúkkað upp núna. Sjálf kveðst hún ekki vilja vita hve mörg fyrirtæki þrífast á því að brjóta á rétti láglaunafólks af erlendum uppruna.
„En íslenska ríkisstjórnin ætlar að setja strangari skilyrði fyrir því að fólk frá Palestínu geti fengið dvalarleyfi hér. Ef neyðin er einhvers staðar meiri þá er það þar. Verum þakklát fyrir það sem við höfum. Það er ekki sjálfsagt. Og hættum að kenna útlendingum um það sem miður fer. Þetta er upp til hópa vinnusamt og nægjusamt fólk sem setur ekki kröfurnar jafn hátt til lífsgæða eins og við Íslendingar.“