Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi í gær mann fyrir líkamsárás. Var maðurinn sakaður um að hafa, á ónefndri krá, veist með ofbeldi að manni og slegið hann með billjardkjuða í hægri hendi með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut fingurbrot á löngutöng.
Samkvæmt lýsingu vitna, þar á meðal brotaþola, gekk maðurinn berserksgang inni á staðnum og réðst að tveimur mönnum sem voru að spila billjarð. Er hann byrjaði að berja brotaþola með kjuðanum setti sá hendurnar fyrir andlitið til að skýla því og fékk þá högg á löngutöng sem olli broti.
Hinn ákærði neitaði sök og bar við minnisleysi. Hann sagðist vera viss um að hann hefði ekki ráðist að neinum, hann sýndi aldrei af sér slíka hegðun.
Þrjú vitni voru hins vegar að atvikinu auk þess sem sjúkraskýrsla talaði sínu máli um áverkann á fingri brotaþolans. Hinn ákærði var því fundinn sekur. Hrein sakaskrá mannsins hafði áhrif á ákvörðun refsingar sem var aðeins 60 daga skilorðsbundið fangelsi.
Sjá nánar hér.