Ef til eldgoss kemur á næstu dögum á Reykjanesi er líklegast að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Kvikumörk undir Svartsengi nálgast nú sömu mörk og í aðdraganda fyrri gosa. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. Ef gos verður á þessu svæði gæti hraun náð að varnargörðum við Grindavík á einni klukkustund.
Talið er að eldgos gæti hafist með litlum fyrirvara, innan við 30 mínútur, allt eftir því hvar á Sundhnúksgígaröðinni kvika kemur upp.
Gos gæti komið upp á öðrum stöðum en farið er yfir ýmsar sviðsmyndir á vef Veðurstofunnar.