Það er ekki oft sem bærinn Bajmak kemst í fréttirnar í rússneskum fjölmiðlum en í síðustu viku var bærinn skyndilega mikið í fréttum.
Myndir birtust á samfélagsmiðlum af fjölmennum mótmælum í bænum sem er í útjaðri Basjkortostan sem er um 1.700 km suðaustan við Moskvu. Sérfræðingar telja mótmælin vera merki um vaxandi óróleika á fátækustu svæðum landsins, langt frá háhýsunum og glæsiverslunum í Moskvu.
Mótmælin í Bajmak hófust á miðvikudaginn þegar aðgerðasinninn Fail Alsynov var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa „hvatt til þjóðernishaturs“ að sögn saksóknara. Málið snerist um ummæli í tengslum við mótmæli á síðasta ári gegn nýtingu gullgrafara á náttúruauðlindum héraðsins. Alsynov hefur lengi verið uppi á kant við yfirvöld. Í desember 2022 sagði hann herkvaðningu á heimamönnum til að senda í stríðið í Úkraínu, vera „þjóðarmorð“.
Íbúar héraðsins tilheyra flestir minnihlutahópi sem talar tyrkneska mállýsku og býr aðallega í Basjkortostan í Úral-héraði.
Í kjölfar dómsuppkvaðningarinnar í síðustu viku kom til mótmæla og söfnuðust að minnsta kosti 5.000 manns saman fyrir framan dómhúsið. Hluti þeirra grýtti snjóboltum í lögregluna og lenti í handalögmálum við hana. Um 40 meiddust í átökunum.
Yfirvöld sendu fjölda lögreglumanna inn í bæinn í kjölfarið og margir þátttakendur í mótmælunum voru handteknir í kjölfarið.