Morgunblaðið greindi frá því í gær að tíu erlend flugfélög afhendi ekki stjórnvöldum lista yfir þá farþega sem hingað koma með þeim. Lög kveða á um að fyrirtæki sem annast flutning farþega til og frá landinu sé skylt að afhenda lögreglu upplýsingar um farþega og áhöfn.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, lýsti áhyggjum sínum af þessu í viðtali við Morgunblaðið og sagði að hending ein réði því hvort brotamenn séu stöðvaðir á landamærum þegar kerfisbundið landamæraeftirlit er ekki til staðar eins og er á ytri landamærum Schengen.
Ásmundur gerði þetta að umtalsefni á Alþingi í gær.
„Frumskilyrði þess að gæta öryggis íbúa landsins er að landamæraeftirlitið virki og við vitum hverjir koma til landsins. Þess vegna hvílir sú skylda á flugfélögum að skila stjórnvöldum og lögreglunni farþegalistum yfir þá farþega sem koma til landsins. Árum saman hafa sömu flugfélögin sem fljúga til landsins komist upp með það að skila ekki farþegalistum,“ sagði Ásmundur sem tók fram að þetta væri ólíðandi.
„Glæpamenn eru sérstaklega útsmognir við að finna smugu á kerfinu og koma sér til landsins með þeim flugfélögum sem skila ekki listum. Það er heimatilbúið vandamál að hafa þessi mál í skötulíki. Samkvæmt lögum er hægt að svipta flugfélög lendingarleyfi sem afhenda ekki stjórnvöldum og yfirvöldum farþegalistana og því á miskunnarlaust að beita,“ sagði hann.
Ásmundur kom inn á annað vandamál sem lögreglan á Suðurnesjum, næst stærsta lögregluembætti landsins, glímir við.
„Það er húsnæðislaust. Lögreglustöðin við Hringbraut í Reykjanesbæ er lokuð vegna myglu. Það sama á við um stöðina í Grindavík sem auk þess er á hættusvæði og er lokuð og þangað fer enginn maður.“
Ásmundur sagði gríðarlegar kröfur gerðar til lögreglunnar á Íslandi og verkefni og aðstaða lögreglunnar á Suðurnesjum sé eiginlega fordæmalaus.
„Er til of mikils mælst að við tryggjum lögreglunni á Suðurnesjum viðunandi vinnuaðstöðu og byggð verði ný lögreglustöð í Reykjanesbæ til að hýsa þá mikilvægu starfsemi sem lögreglan sinnir og glímir við þessa dagana, sem er nánast óviðráðanleg?“