Á síðustu vikum hafa til dæmis bananar, appelsínur, tómatar og ekki síst egg hækkað gríðarlega í verði. Egg eru orðin táknmynd hins hækkaða vöruverðs.
Moskvubúar verða áþreifanlega varir við þetta þegar þeir fara að versla í matinn. „Verðin hafa hækkað gríðarlega. Það er útilokað að fá eitthvað að borða, því það er svo dýrt,“ sagði Irina, Moskvubúi, í samtali við Danska ríkisútvarpið, eftir verslunarferð í stórmarkað.
Samkvæmt tölum frá rússnesku hagstofunni, Rosstat, hafði verð á eggjum hækkað um 42% í nóvember 2023 á tólf mánaða tímabili. Egg eru orðin svo dýr að í sumum verslunum eru þau nú aðeins seld í stykkjatali, ekki bökkum.
Ástæðan fyrir þessu eru refsiaðgerðir Vesturlanda og há verðbólga.
Verðhækkanirnar hafa auðvitað mikil áhrif á þá tekjulágu og um leið hafa þær mikið táknrænt gildi því þetta minnir marga á tíma Sovétríkjanna en þá var skortur á matvælum.
„Þetta er hættulegt fyrir Pútín,“ segir Matilde Kimer, sérfræðingur Danska ríkisútvarpsins í rússneskum málefnum. Hún sagðist hafa séð myndir af fólki bíða í löngum röðum við stórmarkaði í þeirri von að geta keypt egg og að næstum hafi komið til handalögmála.
Hún segir að eggjaverðið hafi ratað í rússneska fjölmiðla og til dæmis hafi það þótt stórfrétt fyrir nokkrum dögum þegar skýrt var frá því að verðið hefði lækkað um 0,2%. „Eggjakrísan gerir að verkum að allt í einu sjá Rússar að sumt geta þeir ekki sjálfir, þrátt fyrir að þeim sé sagt að þeir geti allt,“ segir hún.