Í dag var seinni hluti fyrirtöku við Héraðsdóm Suðurlands í svokölluðu auðkýfingsmáli en þrjár konur eru þar ákærðar fyrir skattalagabrot á grundvelli þess að þær hafi tekið við háum fjárhæðum að gjöf frá erlendum auðkýfingi og ýmist ekki talið þær fram til skatts eða framtalið þær með röngum og villandi hætti.
Í fyrirtökunni gerðust þau tíðindi að einn sakborningurinn, Brynja Norðfjörð, játaði sekt og bíður þess nú að verða ákvörðuð refsing af hálfu héraðsdóms. Móðir Brynju og önnur kona neita hins vegar sök.
Í ákæru héraðssaksóknara er Brynja sögð hafa þegið tæplega 30 milljónir króna að gjöf frá erlenda auðkýfingnum á árunum 2016-2017 og ekki talið þær fram til skatts. Vangreiddur tekjuskattur er 10,8 milljónir króna.
Móðir hennar er sögð hafa þegið 54,4 milljónir króna frá manninum og hafa vangreitt tekjuskatt sem nemur 20,7 milljónir króna.
Sá sakborningur sem fékk hæstu fjárhæðina frá auðkýfingnum erlenda er 28 ára gömul kona. Í ákæru er hún sögð hafa þegið af manninum rúmlega 131,4 milljónir króna, megnið á árinu 2016. Á skattframtali gerði hún grein fyrir greiðslunum sem skuldum en skattayfirvöld og héraðssaksóknari telja að um gjöf hafi verið að ræða.
Mál þessarar konu er nokkuð frábrugðið mál mæðgnanna. Höfuðmunurinn er sá að konan taldi greiðslurnar fram til skatts og gerði grein fyrir þeim sem láni. Þessu til stuðnings tefldi hún fram, er rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst á fjárreiðum hennar, lánasamningi á milli sín og mannsins auk yfirlýsingar hans um lánið á myndbandi. Segir konan að lánasamningurinn hafi verið undirritaður á snekkju auðkýfingsins og hafi skipstjóri og skipsþerna skrifað undir sem vottar. Þrátt fyrir þetta var það mat skattrannsóknastjóra að skattleggja ætti þessar innborganir sem gjöf til konunnar.
Konan hefur sagt í samtali við DV að hún sé fyllilega fær um að endurgreiða lánið og hafi hún fjárfest í eignum á sínum tíma sem tryggingu fyrir því auk þess að leggja á sig mikla vinnu. Lánið sé enda til mjög langs tíma, eða 40 ára.
Skattayfirvöld tóku hins vegar ekki mark á þessum fullyrðingum og gögnum, töldu að um gjafagjörning hefði verið að ræða og að konan hefði átt að telja greiðslurnar fram sem fjárgjöf.
Konunni var gert að greiða skatta af greiðslum auðkýfingsins sem væru þær gjöf en auk þess var lagt á 2,5 prósenta verðbótaálag á mismun á álögðum sköttum og staðgreiðslu. Þetta hefur konan allt gert upp við skattyfirvöld. Héraðssaksóknari ákveður engu að síður að ákæra hana fyrir skattsvik.
Lögmaður konunnar, Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður, segir í greinargerð sinni að vísa eigi málinu frá dómi vegna þess að það fari í bága við samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sbr. lög nr. 62/1994, sem veittu viðaukanum lagagildi hér á landi. Samkvæmt þessu lagaákvæði skal enginn sæta lögsókn né refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur verið sýknaður af eða sakfelldur fyrir með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis.
Bent er á að í dómaframkvæmd MDE hafi beiting stjórnsýsluviðurlaga í formi álags á vantalinn skattstofn falið í sér refsingu og er þar meðal annars vísað til dóms Hæstaréttar frá árinu 2016.
Þannig sé konan nú þegar búin að gangast undir refsingu með því að greiða verðbótaálag ofan á meintar vangreiddar skattgreiðslur.
Konan var beitt harkalegum aðgerðum af hálfu yfirvalda og voru eignir hennar frystar. Lögmaður hennar gagnrýnir framkomu rannsóknaraðila sem virðist hafa gefið sér sekt konunnar fyrirfram og spurningar þeirra hafi miðað að því að knýja hana til að játa þá sök sem þeir töldu hennar, fremur en að upplýsa staðreyndir málsins.
„Ranghugmyndir og staðlausar kenningar rannsakenda um atvik máls höfðu augljósar tengingar við fyrirfram mótaða afstöðu þeirra til sakarefnisins og skort á skilningi á aðstæðum,“ segir meðal annars í greinargerðinni. Einnig gagnrýnir hann að auðkýfingurinn sjálfur hafi ekki verið yfirheyrður en aðeins var stuðst við yfirlýsingu hans á myndbandi.
„Að mati ákærðu er í skýrslum SRR með skipulögðum hætti leitast við að draga allt það fram sem rannsakendur telja að bendi til sektar en atriðum sem horfa til sýknu ýmist lítill gaumur gefinn eða beinlínis reynt að hrekja slík atriði. Í fjölmörgum tilvikum fara ályktanir rannsakenda gegn gögnum málsins og framburði ákærðu og vitna,“ segir ennfremur.
Þá er kyrrsetning eigna konunnar gagnrýnd og bent á að hún sé verulegt inngrip í mannréttindi þess sem fyrir henni verður. Kyrrsetningin skerði með íþyngjandi hætti eignarrétt og friðhelgi einkalífs.
Þá segir að rannsakendur hafi gert mikið úr því að þeir teldu konuna ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að endurgreiðla lánið. Veltir lögmaðurinn því upp hvort mennirnri búi yfir yfirnáttúrulegumkröftum og geti spáð um framtíðina.
Aðalmeðferð í málinu verður á næstu mánuðum. Brynju Norðfjörð verður ákvörðuð refsing en móðir hennar og þriðja konan þurfa að svara til saka.