Forseti landsins lýsti á mánudag yfir neyðarástandi í landinu eftir að glæpaforinginn José Adolfo Macías slapp úr fangelsi á mánudag.
Með þessu virðist forsetinn hafa hellt olíu á eldinn því síðan þá hafa glæpagengi í landinu hótað öllu illu. Minnst tíu borgarar hafa verið myrtir og hafa glæpagengin hótað að drepa þá sem voga sér að fara út fyrir hússins dyr þegar kvölda tekur. Hefur skálmöldin einnig náð inn í fangelsi landsins þar sem fangaverðir hafa verið drepnir eða teknir í gíslingu.
„Þið lýstuð yfir stríði og það er það sem þið fáið,“ hafa glæpasamtökin sagt í yfirlýsingu.
Forseti landsins, Daniel Noboa, hefur fyrirskipað hernum að gera allt sem hann getur til að ná tökum á ástandinu en talið er að um tuttugu glæpahópar standi á bak við uppreisnina í landinu. Stærst þeirra er Choneros en Macías er einmitt leiðtogi þeirra.
Í umfjöllun Mail Online kemur fram að átta hafi verið myrtir í borginni Guayaquil og tveir lögregluþjónar til viðbótar í bænum Nobol.
Bent er á það að ofbeldi glæpahópa í Ekvador, með tengsl við glæpahópa í Kólumbíu og Mexíkó, hafi aukist mjög á undanförnum árum. Berjast hóparnir um þá gríðarlegu hagsmuni sem eru undir í fíkniefnaviðskiptum á svæðinu.