Allt bendir til þess að faraldur þjófnaða á lúxusúlpum sé að skella á í Bretlandi. Daily Mail fjallar um málið en afbrotafræðingur sem miðillinn ræddi við varar þá við sem eiga dýrar yfirhafnir.
Slíkir þjófnaðir færast í vöxt og eru úlpur af gerðinni North Face og Canada Goose sérstaklega vinsælar enda getur verðmæti þeirra hlaupið á hundruðum þúsunda. Eru dæmi þess að brotist sé inn í bíla og hús sem og hreinlega ráðist á vegfarendur og þeir neyddir til að láta yfirhafnirnar af hendi ella verða fyrir ofbeldi.
Árið 2022 var tilkynnt um 2,935 slíka þjófnaði í London en á nýliðnu ári voru tilvikin orðin 5,378 sem er aukning um 83 prósent.
Í áðurnefndri umfjöllun breska miðilsins kemur fyrir ákall sérfræðingsins um að almennir borgarar kaupi ekki slíka dýra merkjavöru af þriðja aðila. Slíkt geti leitt til þess að slíkum glæpum fjölgi.