Nú vill Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra, kanna hvort hægt sé að fá F-35 vélar lánaðar hjá Bandaríkjaher til að mæta þessari seinkun. „Ég mun spyrja bandaríska varnarmálaráðherrann hvort við getum fengið nokkrar bandarískar flugvélar lánaðar um tíma þannig að ekki myndist eyða í afhendingunni,“ sagði Poulsen að sögn Danska ríkisútvarpsins.
Ef þetta gengur upp verða bandarísku vélarnar ekki í Danmörku. Þær munu gera Dönum kleift að fá nokkrar af þeim F-35 vélum, sem þeir eiga, sem eru í Bandaríkjunum. Þar eru sex danskar vélar í Luke Air Force Base í Arizona. Þær eru hluti af alþjóðlegum skóla þar sem notkun F-35 er kennd.
Poulsen er því að leggja til að dönsku vélarnar komi heim til Danmerkur og þær bandarísku verði nýttar við kennsluna í Arizona.
Danir ákváðu fyrir mörgum árum að kaupa 27 vélar af gerðinni F-35 en það eru fullkomnustu orustuþotur í heimi. Kaupverðið er 16 milljarðar danskra króna en það svara til um 320 milljarða íslenskra króna. Nú eru uppi hugmyndir um að kaupa fleiri vélar og er það innrás Rússa í Úkraínu sem hefur kynt undir þeim hugmyndum.