Snjóflóð féll í fjallshlíð í Brimnesdal suður af Ólafsfirði á sjö manna skíðahóp fyrr í dag. Tilkynning um snjóflóðið barst kl. 12.27 og hafa björgunarsveitir frá Akureyri og Siglufirði verið kallaðar út ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Einn í hópnum er fótbrotinn.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við Vísi að þyrlan sé ekki lögð af stað norður og verið sé að kanna hvort unnt sé að senda hana á svæðið. Hann segir aðstæður erfið vegna lágrar skýjastöðu og lélegs skyggnis á svæðinu.
Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir eru komnar á staðinn og unnið er að því að koma fólkinu niður úr fjallinu. Slasaði maðurinn verður fluttur niður með snjótroðara og mun þyrlan síðan fljúga með hann á sjúkrahús. Aðrir í hópnum virðast hafa sloppið ómeiddir, en eru þó orðnir kaldir uppi í fjallinu, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Uppfært kl. 16.30 samkvæmt tilkynningu frá lögreglu:
Um tveimur klukkustundum eftir að útkall barst komust sjúkraflutningamenn til hópsins. Kom þá í ljós að annar skíðamaður var einnig lítilsháttar slasaður. Hlúð var að hinum slösuðu og búið um þau til flutnings. Voru þau flutt niður Brimnesdalinn og þar í sjúkrabíl sem flutti þau til Akureyrar. Þyrla LHG gat ekki aðhafst á slysavettvangi vegna veðurskilyrða en hún var kominn til Ólafsfjarðar áður en flutningur á hinum slösuðu til byggða hófst.
Verkefnið gekk vel fyrir sig en aðstæður voru mjög krefjandi sökum úrkomu, snjóblindu og mikilar snjóflóðahættu á svæðinu.
Á leið sinni á vettvang sáu viðbragðsaðilar hvar snjóflóð höfðu fallið á nokkrum stöðum í dalnum. Er því áréttað að mikil snjóflóðahætta er á Tröllaskaga og nálægum útivistarsvæðum til fjalla.