Krónan hefur, í samráði við Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, innkallað krydd frá framleiðandum Bowl & Basket vegna skordýra sem fundust í vörunni. Um er að ræða krydd af tegundinni Jalapeno Everything Bagel Seasoning.
Viðskiptavinum sem hafa verslað vöruna í verslunum Krónunnar er bent á að skila henni í viðkomandi verslun gegn fullri endurgreiðslu.
Rekja má innköllunina til myndbands sem viðskiptavinur birti á Facebook-síðunni vinsælu Matartips! þar sem tæplega 54 þúsund meðlimir eru. Þar má sjá fjöldann allan af lirfum iðandi í kryddstauknum og vakti færslan gríðarlega athygli í hópnum.
„Ferskt prótín!,“ sagði einn léttur netverji og annar benti á að það hlytu að vera þessi 17 grömm af prótíni sem minnst er á í innihaldslýsingunni.
Annar netverji greindi þá frá því að hann hafi opnað kryddstauk á dögunum og þá hafi fiðrildi flogið upp úr honum. Velti sá fyrir sér hvort að um fiðrildalirfur væri að ræða.
Margir bentu notendanum á að senda skeyti á Heilbrigðiseftirlitið sem var og gert. Málið var svo sett í ferli og brást Krónan hratt og vel við ábendingunum.