Leigubílstjóri í Reykjavík hefur verið ákærður fyrir að hafa nauðgað farþega sínum, konu sem hann ók frá miðborg Reykjavíkur til Reykjanesbæjar.
Atvikið átti sér stað 25. september árið 2022. Í ákæru héraðssaksóknara segir að hinn ákærði hafi beitt konuna ólögmætri nauðung, haft við hana önnur kynferðismök en samfarir, ákærði hafi kysst hana nokkrum sinnum á munninn, þuklað á brjóstum hennar innan- og utanklæða, þuklað á kynfærum hennar utanklæða og nuddað kynfæri hennar innanklæða.
Þess er krafist að leigubílstjórinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu konunnar er krafist þriggja milljóna króna miskabóta.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á næstunni.