Harðir bardagar hafa geisað í Donetsk-héraði og þá sérstaklega við Avdviika. Reuters segir að bæði bandarísk og rússnesk stjórnvöld lýsi þessu sem nýrri sókn Rússa.
Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, sagði í gær að staða rússnesku hersveitanna í Úkraínu hafi styrkst síðustu daga á nær allri víglínunni.
Matilde Kimer, fréttamaður Danska ríkisútvarpsins, var við víglínuna í austurhluta Úkraínu um helgina og sagði að rússnesku hersveitirnar séu að ná árangri þar þessa dagana, ekki miklum þó. Þeir sæki ekki hratt fram og bíði mikið tjón.
Nú hefur verið barist af hörku um Avdviika í eina viku og eru bardagarnir svo harðir að ekki hefur verið hægt að fjarlægja líkin af föllnum hermönnum.
Kimer sagði að markmið Rússa með þessum hörðu árásum sé að hrekja úkraínskar hersveitir frá Donetsk, sem er aðalbærinn í austurhluta Úkraínu, og Avdviika en þetta eru eiginlega einu staðirnir sem Úkraínumenn hafa á valdi sínu í héraðinu.
Kimer sagði að rússnesku hersveitirnar hafi safnað kröftum mánuðum saman, sparað skotfæri og mannskap. Nú hafi þeir látið til skara skríða og sæki fram af krafti.
Hún sagði einnig að það geti reynst erfitt fyrir úkraínsku hersveitirnar að verjast sókn Rússa í Avdviika án þess að fá liðsauka. Hugsanlega þurfi að flytja hermenn og vopn, þar á meðal þungavopn, frá öðrum víglínum.