Nýstofnað málfundafélag, Frelsi og fullveldi, hélt nýlega opinn fund fyrir fullu húsi á veitingastaðnum Catalínu í Kópavogi. Fundurinn bar yfirskriftina Óviðeigandi kennsluefni í skólum.
Mikill styrr hefur staðið um kennslubókina Kyn, kynlíf og allt hitt en annar framsögumanna á fundinum var Guðrún Ágústa Ágústsdóttir, uppeldis-,fíkni- og fjölskyldufræðingur, sem hefur gagnrýnt bókina harðlega í viðtali við DV.
Hinn framsögumaðurinn á fundinum var Kristín Þormar skrifstofustjóri. Líflegar umræður spunnust á fundinum að loknum framsöguræðum, að því er segir í fréttatilkynningu um fundinn.
Formaður félagsins Frelsi og fullveldi er séra Geir Waage, pastor emeritus í Reykholti.
Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, er stjórnarmaður í félaginu.
Félagið samþykkti tvær ályktanir eftir fundinn, aðra gegn meintu óviðeigandi kynfræðsluefni og hina til stuðnings kristnifræðslu í skólum. Ályktanirnar eru eftirfarandi:
„Málfundafélagið FRELSI OG FULLVELDI hafnar því að leik- og grunnskólabörnum sé misboðið með óviðeigandi og klámfengnu kennsluefni í skólum landsins.
Börn eiga rétt á að fá að vera börn og eiga að vera varin fyrir að brotið sé gegn sakleysi þeirra og blygðunarkennd og með því að ráðast inn í sálarlíf þeirra til að sá fræjum efasemda um sjálfsmynd þeirra og vitund.
Opinn fundur félagsins haldinn á veitingahúsinu Catalínu í Kópavogi 2. október 2023 krefst þess að umdeild kennslubók og önnur sambærileg kennslurit og kennsluefni verði tekin úr notkun í leik- og grunnskólum landsins.
Stjórnvöld geta ekki vikið sér undan ábyrgð sinni í þessu efni.“
„Málfundafélagið FRELSI OG FULLVELDI leggur áherslu á krisitinfræðikennslu í skólum landsins.
Opinn fundur félagsins haldinn á veitingahúsinu Catalínu í Kópavogi 2. október 2023 ályktar að skora á Alþingi og stjórnvöld að beita sér fyrir samþykki framkominnar tillögu á Alþingi um aukna fræðslu barna og ungmenna um kristin fræði og kristinn menningararf.“
Báðar ályktanirnar voru samþykktar einróma.