Ástæðan er að Rússar fá ekki greitt fyrir olíuna í evrum eða dollurum, þeir fá greitt í indverskum rúpíum. Það veldur þeim vanda því að þær geta Rússarnir ekki notað og það er ekki hægt að skipta þeim óhindrað eins og til dæmis dollurum.
Allar stórar peningafærslur verða að hljóta samþykki indverskra stjórnvalda og Narendra Modir og stjórn hans hafa ekki veitt nauðsynlegt samþykki svo hægt sé að skipta rúpíum yfir í aðra gjaldmiðla. Af þeim sökum safna stórar fjárhæðir nánast ryki í indverskum bönkum.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, viðurkenndi á fréttamannafundi í Nýju-Delí, í tengslum fyrir fund G20 ríkjanna, fyrir nokkrum vikum að Rússar ættu marga milljarða rúpía sem þeir hefðu ekki enn fundið leið til að nota.
Þetta eru engir smáaurar því Indverjar hafa keypt rúmlega hálfan milljarða olíutunna af Rússum það sem af er ári. Það er næstum því 10 sinnum meira magn en 2021. Ef þetta er metið í dollurum þá eru mánaðarviðskiptin um 1 milljarður.
Þessi afleita staða fyrir Rússa er afleiðing refsiaðgerða Vesturlanda. Til dæmis vegna þess að þeir eru nú útilokaðir frá greiðslukerfinu swift og þar með eru þeir útilokaðir frá dollaraviðskiptum.
Rússum hefur á margan hátt tekist að sneiða fram hjá refsiaðgerðunum en óvenjulegar viðskiptaaðferðir hafa neytt þá til að velja óhagkvæmar lausnir.
Indverjar hafa viðurkennt að um vandamál sé að ræða en hafa samt sem áður ekki gefið nein fyrirheit um að Rússar geti skipt öllum þessum rúpíum í aðra gjaldmiðla. Þess í stað hefur ríkisstjórnin lagt til óvenjulega leið sem þýðir að Rússar fái tækifæri til að fjárfesta á Indlandi fyrir þessa peninga. Lavrov sagði á fyrrnefndum fréttamannafundi að Indverjar hafi fullvissað rússa um að þeir muni benda á vænlega fjárfestingarmöguleika.
Þetta gæti í sjálfu sér verið góð lausn því ágætur hagvöxtur er á Indlandi eða 7-8%, en auðvitað er það síðan stóra spurningin hvort Rússar hafi þörf fyrir peningana annars staðar. Það hafa þeir væntanlega því stríðsreksturinn í Úkraínu er dýr og Rússar hafa þörf fyrir dollara til að geta fjármagnað hann og margt annað.
Rússar hafa gert það að skilyrði fyrir endurupptöku kornsamningsins við Úkraínu að þeir fái aðgang að swift-kerfinu á nýjan leik svo þeir geti sjálfir séð um útflutninginn á eigin landbúnaðarafurðum en matvörur eru undanþegnar refsiaðgerðum Vesturlanda. Þetta bendir til að þeir hafi þörf fyrir dollara.