Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í samgöngunefnd Alþingis, segir að víða væri hægt að hækka hámarkshraða á þjóðvegum landsins.
Vilhjálmur lagði á dögunum fram fyrirspurn til Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra hvort til skoðunar hefði komið að nýta heimild í umferðarlögum um aukinn hámarkshraða á ákveðnum vegarköflum. Spurði hann enn fremur hvers vegna þessi heimild hefði ekki verið nýtt.
Hann var gestur í þættinum Reykjavík síðdegis í gær þar sem hann benti á að í umferðarlögum frá 2019 hafi verið sett inn heimild til að hækka hámarkshraðann að vissum skilyrðum uppfylltum.
Ráðherra var falið að útfæra þessi skilyrði nánar í reglugerð sem ekkert bólar á. Ákvað Vilhjálmur því að spyrjast fyrir um málið og bíður hann svara.
„Nú eru liðin fjögur ár og ýmsir vegir komnir með aðskildar akstursstefnur, eru tveir plús tveir eða tveir plús einn á löngum köflum,“ sagði hann og nefndi til dæmis Reykjanesbrautina og Suðurlandsveg máli sínu til stuðnings.
Sem fyrr segir væri ráðherra að segja til um hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla en Vilhjálmur, sem er fyrrverandi lögreglumaður, nefnir í því samhengi aðskildar akstursstefnur og að umhverfi vegarins sé öruggt. Vilhjálmur notar Reykjanesbrautina sjálfur mikið og segir að þar sé hægt að hækka hraðann.
„Já, það eru margir kaflar sem ég gæti treyst á. Maður finnur það alveg að ef maður keyrir á 90 kílómetra hraða þá er maður ekki að keyra á umferðarhraðanum. Umferðarhraðinn er nær 110 en þessum 90 kílómetrum,“ segir hann.