Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að manni verði gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar en hann hafði fengið reynslulausn.
Um er að ræða 445 daga eftirstöðvar reynslulausnar. Í úrskurði héraðsdóms eru reifuð þrjú mál gegn manninum sem eru til rannsóknar hjá lögreglu og er hann sterklega grunaður um að hafa framið afbrot sem geta varðað allt að tíu ára fangelsi.
Í fyrsta lagi er maðurinn grunaður um að hafa fyllt geymslu sem hann tók á leigu í Hafnarfirði af þýfi, meðal annars dýrum verkfærum.
Í öðru lagi er maðurinn grunaður um að hafa frelsissvipt mann á Akureyri og misþyrmt honum, meðal annars með hamri og plaststyrktum hanska. Atvikum er lýst svo í úrskurðinum:
„Í máli nr. 316-2023-[…] er kærði undir sterkum grun fyrir frelsissviptingu, rán og líkamsárás, í félagi við þekkta aðila, að […] á Akureyri þann 22. júní 2023. A, kt. […], kærasta brotaþola, C, kt. […], hafði samband við lögreglu og kvaðst gruna að brotaþoli væri frelsissviptur. Hún hafi fengið símtal úr farsíma
brotaþola þar sem hún hafi heyrt í kærða og tveimur öðrum, og sagt var „Á ég að taka hægra eða vinstra auga?“. Lögregla handtók kærða og þrjá aðra aðila að […]. Brotaþoli kvaðst hafa farið að […]til að skemmta sér og kaupa fíkniefni. Skömmu síðar hafi kærði og tveir aðrir aðilar beitt hann ofbeldi. Kærði hafi meðal annars lamið hann ítrekað í hausinn í hanska með plaststyrkingu yfir hnúana og slegið hann með hamri í hendi og kálfa. Kærði hafi einnig tekið af honum úr, farsíma og rafmagnshlaupahjól. Brotaþoli hafi kvaðst hafa fengið að fara þegar hann hafi lofað kærða og hinum aðilunum greiðslu seinna. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst kærði hafa verið á staðnum en hafi ekki tekið þátt í átökunum og ekki tekið muni brotaþola. Tveir sakborningar í málinu hafa borið um að kærði hafi beitt brotaþola ofbeldi. Brot kærða eru talin varða við 218. gr., 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varða fangelsi allt að 10 árum.“
Maðurinn er síðan sakaður um aðra frelsissviptingu, rán og líkamsárás í Hafnarfirði. Þar hellti hann bensíni yfir brotaþolann en atvikinu er lýst svo:
„Í máli nr. 007-2022-[…]er kærði undir sterkum grun fyrir frelsissviptingu, rán og líkamsárás, í félagi við þekkta aðila, að […] hjá […] í Hafnarfirði þann 24. júlí 2022. Brotaþoli, D, kt. […], kveðst hafa ætlað aðkaupa fíkniefni af kærða og fóru þeir saman í leigubíl ásamt öðrum aðila að […]. Þar hafi þriðji aðilinn verið og allir hótað brotaþola, tekið muni af honum og neytt hann upp í bifreið. Í bifreiðinni hafi kærði hellt bensíni yfir hann, beitt hann ofbeldi og hótað honum. Farið hafi verið með hann að […] en þar hafi frekara ofbeldi átt að eiga sér stað. Brotaþoli hafi náð að hlaupa undan og í bifreið sem átti leið hjá. Ökumaður bifreiðarinnar bar um að hún hafi séð brotaþola rífa sig lausan undan hópi af fólki, hlaupið frá þeim og að bifreið sinni. Hann hafi bankað ítrekað á bifreið hennar og viljað komast inn. Kona hafi hlaupið á eftir brotaþola og reynt að tosa hann úr bílnum en þau hafi náð að keyra í burtu frá henni. Brotaþoli hafi sagt fólkið hafa frelsissvipt sig og barið sig. Hann hafi verið í miklu uppnámi og grátið í bifreiðinni. Þá kvaðst farþegi í bifreiðinni hafa séð áverka við auga brotaþola. Leigubílstjóri hjá Hreyfli kveðst hafa ekið kærða, brotaþola og öðrum manni að iðnaðarhúsnæði að […]. Brot kærða eru talin varða við 217. gr., 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varða fangelsi allt að 10 árum.“
Það er úrskurður bæði héraðsdóms og Landsréttar að maðurinn skuli afplána 445 daga refsingu sem hann hafði áður fengið reynslulausn frá. Sjá nánar hér.