Tómas Guðbjartsson, landsþekktur læknir og náttúruverndarsinni, leggst hart gegn tillögum Orkubús Vestfjarða um byggingu vatnsaflsvirkjunar í Vatnsdal í Vatnsfirði. Orkuvandi Vestfjarða er mikill en Tómas telur að með þessari leið sé verið að slátra mjólkurkúm í formi fágætra náttúruperlna.
Í grein sem Tómas birti á Vísir.is í síðustu viku segir:
„Það er undarlegt að í fjölmiðlaumræðunni um Vatnsfjarðarvirkjun eru aldrei sýndar í fjölmiðlum ljósmyndir af mikilfenglegum fossum og árgljúfrum Vatnsdalsár. Skyldi það vera tilviljun, eða er sami skollleikur í gangi og með fossana sem stóð til að slátra með Hvalárvirkjun? Birtar eru eins “fábrotnar” myndir og hægt er af umhverfinu, gjarnan í dumbungi. Þannig er staðsetning stöðvarhússins í miðju friðlandsins réttlætt, enda þótt það eigi að vera steinsnar frá stórkostlegum fossum og gljúfrum. Í skýrslu um virkjunina er sagt að rask á umhverfinu yrði lítið og m.a. vísað til þess að uppistöðulón yrðu lítt sjáanleg uppi á stórgrýttri heiði. Ekkert er minnst á fossana sem myndu hverfa og eru tvímælalaust helstu gimsteinar friðlandsins.“
Tómas segir að betri lausnir á orkuvanda Vestfirðinga en Vatnsdalsvirkjun séu til, bætt dreifikerfi rafmagns og margar smærri virkjanir. Hann skrifar:
„Ég skil vel óþolinmæði Vestfirðinga sem telja sig hafa verið afskipta hvað orkuöryggi varðar. Lausnin á þeim vanda er bætt dreifikerfi rafmagns vestur og áhersla á smærri virkjanir– í stað þess að fórna fyrir megawött friðuðum náttúruperlum eins og þeim í Vatnsfirði. Höfum hugfast að á sl. öld og fram á 21. öldina stóð til að virkja eina helstu gullkú Vestfjarða, fossinn Dynjanda, sem er einn helsti viðkomustaður ferðamanna á Vestfjörðum. Vatnsfjörður er sömuleiðis dýrmæt náttúruperla með einstökum fossum og náttúru sem ber að láta í friði. Það var ekki að ástæðulausu að þessi tveir staðir voru friðlýstir á sínum tíma.“
Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, svarar grein Tómasar á Vísir.is í dag. Elías segir að Vatnsdalsvirkjun myndi leysa orkuvanda Vestfirðinga og tillögur Tómasar séu mun langsóttari. Bygging fjölda smávirkjana sé óraunhæfur kostur en löng flutningslína rafafls vestur sé þungfær leið því semja þyrfti við 70 landeigendur á 160 km leið um framkvæmdina. Elías bendir á að Vestfirðingar séu tilneyddir til að nýta jarðefnaeldsneyti í miklum mæli við núverandi aðstæður. Segir hann að þörf fyrir jarðefnaeldsneyti á Vestfjörðum muni auka ef ekki komi til aðgerða strax. Lokahluti greinar Elíasar er eftirfarandi:
„Í grein Tómasar Guðbjartssonar leggur hann til tvær lausnir við orkuvanda Vestfjarða. Annars vegar smávirkjanir og hins vegar að rafmagnið verði tekið út af flutningsnetinu með nýrri línu frá Hrútafirði í Mjólká. Tómas telur þannig betra að leysa vanda Vestfirðinga með smávirkjunum sem þyrftu þá kannski að vera 50 til 60 að tölu til að mæta sömu aflþörf og Vatnsdalsvirkjun myndi gera. Þær þyrftu allar að hafa eigið uppistöðulón því annars væru þær gagnslausar til að mæta þeim vanda sem blasir við Vestfirðingum – aflskorti. En jafnvel þótt þær yrðu byggðar þá yrði áfram flókið að stýra raforkukerfinu með svo mörgum og litlum einingum. Þá má ekki gleyma því að aukinn kostnaður við að hafa við þær uppistöðulón og gera þær stýranlegar gerir þær svo dýrar að þær stæðu ekki undir fjárfestingunni við byggingu þeirra. Ég tel að þessi lausn sé því miður algjörlega óraunhæf.
Hin leiðin væri að mati Tómasar að byggja nýja 160 km langa flutningslínu sem við gætum kallað Vestfjarðalínu 2, sem færi óumflýjanlega um hluta þeirra svæða sem skilgreind eru ósnert víðerni á Vestfjörðum. Rétt er að hafa í huga að núverandi Vesturlína er 45 ára gömul tréstauralína og mun innan tíðar þarfnast endurnýjunar. Lausnin felst þá óhjákvæmilega í að byggja nýja línu „strax“ og endurnýja þá væntanlega gömlu línuna á næstu tveimur áratugum.
Orkubúið útilokar að sjálfsögðu ekki lausn með tvöfaldri línu, en hefur þó ákveðnar efasemdir um að auðvelt verði að leysa vandann nægilega fljótt með þeim hætti því þá þarf að finna leið til að semja við 70 landeigendur á þeirri 160 km löngu leið sem er úr Hrútatungu í Mjólká, á mettíma, auk þess sem tryggja þarf fjármagn, ekki bara í eina heldur í tvær línur á næstu 20 árum.
Bygging fleiri dísilorkuvera leysir heldur ekki vandann. Lang raunhæfasti valkosturinn til lausnar er því uppbygging raforkuframleiðslu með vatnsaflsvirkjunum innan Vestfjarða.“