Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að lögregla megi rannsaka innihald muna sem hún hefur haldlagt af manni sem grunaður er um tengsl við skipulagða glæpastarfsemi.
Um er að ræða snjallsíma, spjaldtölvu, fartölvu, harðan disk og handskrifuð sendibréf sem fundust heima hjá manninum. Í úrskurði héraðsdóms um málsatvik segir svo:
„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar mál sem varðar sölu og dreifingu fíkniefna og lyfja. Þann 1. ágúst sl. var kærði stöðvaður á bifreiðinni […]
vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Með kærða í bifreiðinni var A, kt. […]. Við öryggisleit á A fann lögregla 23 smelluláspoka af ætluðu kókaíni, sem og 2 spjöld af lyfseðilsskylda lyfinu oxycontin. Meðan á afskiptum lögreglu stóð hringdi farsími kærða stöðugt. Við leit í bifreiðinni sem og á kærða fann lögregla einnig 80.000 kr. í reiðufé. Kærði og A heimiluðu í kjölfarið leit á dvalarstað þeirra að […]. Við húsleitina fann lögregla poka af hvítu efni, vog, raftæki sem og mikið magn af póstlögðum bréfum erlendis frá, sem stílað var á kærða. Kærði er […] ríkisborgari og hefur verið hér á landi í tæplega […] mánuði.
Lögregla grunar að kærði kunni að vera tengdur skipulagðri glæpastarfsemi.“
Í kröfu lögreglustjóra um veittan aðgang að innihaldi tækjanna segir að það sé mat lögreglu að upplýsingar í tækjunum og bréfunum geti skipt miklu máli fyrir rannsókn málsins.
Héraðsdómur féllst á kröfuna og núna hefur Landsréttur staðfest þann úrskurð.
Sjá nánar hér.